Erlent

Brúðargjald löglegt í Úganda en ekki hægt að fá endurgreitt

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Kampala, höfuðborg Úganda.
Kampala, höfuðborg Úganda. vísir/getty
Hæstiréttur Úganda hefur lagt bann við því að skila brúðargjaldi í kjölfar skilnaðar hjóna. Úrskurður þess efnis var kveðinn upp í höfuðborginni Kampala í dag en AP segir frá.

Hópur fólks hafði höfðað mál til að fá úr því skorið hvort brúðargjaldið stæðist lög. Gjaldið er oftar en ekki fé eða búfénaður sem brúðguminn greiðir til fjölskyldu verðandi eiginkonu sinnar. Meðlimir hópsins vildu meina að gjaldið væri niðurlægjandi fyrir konur og myndi í raun gera þær að eign mannsins.

Rekstur málsins hófst árið 2007 og er nú lokið með niðurstöðu hæstaréttar. Dómurinn féllst á það með málshefjendum að það væri niðurlægjandi að skila brúðargjaldinu aftur til mannsins ef upp úr flosnaði og hafði orð á því að „konur væru ekki vörur sem hægt væri að kaupa og skila á markaði.“ Rétturinn taldi hins vegar að gjaldið sjálft stæðist stjórnarskrá.

„Þetta er sigur fyrir okkur og fyrir konur,“ segir Leah Nabunnya talsmaður hópsins sem höfðaði málið. Hún bætir því við að rannsóknir sýni að fjöldi kvenna í Úganda séu fastar í ofbeldissamböndum og þurfi að giftast mönnum sem þær vilji lítið með hafa. „Komi til skilnaðar eru margar fjölskyldur í þeirri aðstöðu að geta ekki skilað gjaldinu og þetta er því áfangasigur.“


Tengdar fréttir

Segir lögin í Úganda mikil vonbrigði

"Íslensk stjórnvöld styðja réttindabaráttu hinsegin fólks á alþjóðavettvangi og það eru mér því mikil vonbrigði að þessi lög hafa nú tekið gildi,“ segir í tilkynningu frá Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra.

Mannréttindi í Úganda styrkt

Samtökin 78 & Íslandsdeild Amnesty International, ásamt nemum í tómstunda- og félagsmálafræði standa fyrir tónleikumí kvöld til styrktar mannréttindum í Úganda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×