Enski boltinn

Brottrekstur Moyes staðfestur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Manchester United hefur staðfest að félagið hafi sagt knattspyrnustjóranum David Moyes upp störfum.

Félagið birti í morgun stutta yfirlýsingu þess efnis á heimasíðu sinni. „Félagið vill færa honum þakkir fyrir þá miklu vinnu, heiðarleika og heilindi sem hann færði félaginu,“ sagði í henni.

Ekki er ljóst á þessari stundu hver tekur við starfinu en enska blaðið The Telegraph fullyrðir að Ryan Giggs og Nicky Butt muni taka við stjórninni til loka tímabilsins.

Moyes tók við starfi knattspyrnustjóra Manchester United af Sir Alex Ferguson síðastliðið sumar en liðinu hefur ekki gengið vel í vetur og situr nú í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Enskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um málið síðan fréttir af væntanlegum brottrekstri Moyes bárust í gær.

Daily Mirror fullyrti til að mynda í morgun að leikmenn United hafi sagt vinum og vandamönnum fyrir tap liðsins gegn Everton um helgina að Moyes yrði rekinn.

Independent segir enn fremur að þetta hafi legið í loftinu síðan í febrúar og að félagið komist upp með að greiða Moyes aðeins eins árs laun við uppsögnina þar sem liðinu mistókst að komast í Meistaradeild Evrópu.

United varð endanlega af sæti í Meistaradeildinni með tapinu gegn Everton um helgina.

Jürgen Klopp, stjóri Dortmund í Þýskalandi, er sem fyrr sterklega orðaður við starfið en aðrir sem eru sagðir koma til greina eru Louis van Gaal, Diego Simeone og Carlo Ancelotti.


Tengdar fréttir

Gary Neville vill að Moyes fá meiri tíma

Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United og núverandi knattspyrnuspekingur hjá Sky-sjónvarpsstöðinni, vill ekki að félagið reki knattspyrnustjórann David Moyes en enskir miðlar voru sammála um það í dag að United ætli að reka Moyes á næstu 24 tímum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×