Innlent

Brotist inn hjá Fjölskylduhjálp: „Þetta er bara alveg skelfilegt“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Brotin var rúða í forstofu húsnæðis Fjölskylduhjálpar við Iðufell.
Brotin var rúða í forstofu húsnæðis Fjölskylduhjálpar við Iðufell. Vísir/Andri Marinó
Brotist var inn í húsnæði Fjölskylduhjálpar við Iðufella síðastliðna nótt. 

„Þetta er bara alveg skelfilegt og ég skil ekki hvað fólki gengur til. Það er virkilega sárt að það sé ráðist svona á þetta þar sem þetta er góðgerðarstarfsemi,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar.

„Ég var hérna í gær og þá var allt með felldu en svo kem ég hingað í dag því við erum með neyðarúthlutun og þá er búið að brjóta tvöfalt gler sem er hér í verksmiðjugámi sem við höfum undir kertaframleiðslu. Svo var líka búið að brjóta gler í rúðu í forstofunni,“ segir Ásgerður. Reitir eiga húsnæðið og gámurinn er í eigu Gámaþjónustunnar.

Engu var stolið þar sem þjófarnir komust ekki inn í húsnæðið sjálft en tjónið er engu að síður mikið. Ásgerður segir þetta vera í 4. skiptið bara núna í desember sem reynt er að brjótast inn í húsnæði Fjölskylduhjálpar.

„Ég vil þó sérstaklega taka það fram að ég vil alls ekki skrifa þetta á unglinga hér í Breiðholti þar sem við höfum orðið vör við að hingað í hverfið koma krakkar af öllu höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ásgerður.

Hún biðlar til þeirra sem gætu hafa orðið varir við eitthvað við Iðufell að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.

Brotinn var gluggi á gámi þar sem kertaframleiðsla fyrir Fjölskylduhjálp fer fram.Vísir/Andri Marinó
Kveikt í bíl kertagerðarmeistarans

Þá var kveikt í bíl kertagerðarmeistara Fjölskylduhjálparinnar í liðinni viku en hann stóð fyrir utan húsnæðið í Iðufelli yfir nótt.

„Bíllinn er gjörónýtur,“ segir Jón Elíasson, kertagerðarmeistari. Hann segir ekki vita hverjir hafi verið að verki þar sem engin vitni voru að atburðinum og engar myndavélar í kring. Draga þurfti bílinn í burtu þar sem hann var óökuhæfur enda brann allt inni í honum.

Engu var stolið en tjónið er engu að síður mikið.Vísir/Andri Marinó



Fleiri fréttir

Sjá meira


×