Innlent

Brotið á rétti fatlaðs fólks í Vesturbyggð

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Vesturbyggð hefur ekki boðið fötluðum íbúum sveitarfélagsins upp á lögbundna ferðaþjónustu í mörg ár.
Vesturbyggð hefur ekki boðið fötluðum íbúum sveitarfélagsins upp á lögbundna ferðaþjónustu í mörg ár. Vísir/Anton brink
„Um þessi mál hafa allir þagað á sama tíma og allt verður vitlaust ef fatlaður Reykvíkingur þarf að bíða í einn eða tvo klukkutíma eftir flutningi,“ segir Valdimar Össurarson, sem hefur barist fyrir rétti fatlaðra í sveitarfélaginu Vesturbyggð um tíma. Móðir Valdimars er bundin við hjólastól og býr í því sveitarfélagi.

Valdimar Össurarson
Að sögn Valdimars hefur sveitarfélagið komist upp með að brjóta lög um málefni fatlaðra, jafnræðisreglu Stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna í mörg ár með því að bjóða ekki upp á lögbundna ferðaþjónustu fyrir fatlaða. Þar sé enginn bíll til slíks akstur. „Það eru margvísleg lögbrot sem fatlað fólk í Vesturbyggð sætir af hálfu opinberra aðila. Vesturbyggð er lítið samfélag og því er málið viðkvæmt. Fatlaðir í sveitarfélaginu eru þannig í mjög slæmri aðstöðu til að sækja rétt sinn.“

Sveitarfélagið samanstendur af fjórum hreppum og eru Patreksfjörður og Bíldudalur aðalþéttbýliskjarnarnir. Þar búa rúmlega eitt þúsund manns.

Í lögum um málefni fatlaðs fólks segir að sveitarfélög skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustu fatlaðs fólks sé að gera þeim sem ekki geta nýtt sé almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.

Sigurjón Unnar Sveinsson
„Þetta er eitt af þeim ákvæðum sem er einna skýrast í lögunum. Það er mjög alvarlegt ef sveitarfélag sér ekki að hér er um skyldu að ræða. Þeir hafa sagt í tvö ár að þeir séu að að reyna semja við verktaka til að keyra bíl en aldrei hefur neitt verið gert,“ segir Sigurjón Unnar Sveinsson, lögfræðingur hjá Öryrkjabandalagi Íslands og bætir við að málið sé algjörlega óásættanlegt.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, staðfestir að ekki sé í boði ferðaþjónusta fyrir fatlaða í Vesturbyggð. „Við höfum reynt að semja við verktaka um málið og vorum búin að semja við aðila en hann gaf svo verkefnið frá sér.“

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
Ásthildur segir að unnið sé í því að finna verktaka á svæðinu til þess að taka að sér akstur fatlaðra. Ábyrgðin sé þó ekki á sveitarfélaginu heldur ríkinu. „Þeir aðilar sem þurfa á ferðaþjónustu að halda í Vesturbyggð eru allir á sjúkrahúsi og er það því hlutverk ríkisins að halda utan um þá aðila. Þetta er í raun ekki í okkar höndum,“ segir Ásthildur og bætir við að sveitarfélagið vilji hins vegar koma upp þjónustu fyrir fatlaða. „Við viljum sinna fötluðum íbúum vel og höfum verið að reyna finna lausn í þessi mál. Fyrir lítið sveitarfélag er þetta gríðarlega mikill kostnaður.“

Sigurjón segir engu máli skipta að fatlaðir einstaklingar í Vesturbyggð séu á sjúkrahúsum. Skyldan sé lögbundin. „Þetta er ekkert flókið. Þeir eru ekki að sinna því sem þeim ber að gera samkvæmt lögum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×