Erlent

Bróðir Qandeel Baloch byrlaði foreldrum sínum ólyfjan áður en hann myrti systur sína

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Morð Qandeel Baloch hefur hlotið mikla fjölmiðlaathygli enda var hún ein frægasta kona Pakistan.
Morð Qandeel Baloch hefur hlotið mikla fjölmiðlaathygli enda var hún ein frægasta kona Pakistan. Vísir/AFP
Foreldrar pakistönsku internetstjörnunnar Qandeel Baloch segjast harmi slegnir eftir að yngri sonur þeirra kyrkti dóttur þeirra á föstudaginn síðastliðinn. Waseem Baloch hefur verið handtekinn en hann hefur játað á sig verknaðinn. Faðir hans segist óska þess að hann fái dauðadóm fyrir.

Foreldrar Qandeel segja son sinn hafa byrjað sér og dóttur sinni ólyfjan. Þau hafi drukkið mjólk um kvöldið og bæði fallið í fastasvefn. Waseem á að hafa gert það sama við systur sína sem hann kyrkti svo til dauða á meðan hún var án meðvitundar. Hann segist hafa gert þetta til þess að systir hans gæti ekki öskrað á hjálp til foreldra þeirra.

Faðir hennar lýsir dóttur sinni sem sínum besta vin og sagðist aldrei hafa skammast sín fyrir hegðun hennar.

Mikil reiði á meðal kvenna í Pakistan

Waseem segist hafa myrt systur sína vegna þess að hún hafi svívirt nafn fjölskyldunnar en slík heiðursmorð eru algeng í Pakistan. Talað er um að um 500 manns séu myrt á ári hverju af fjölskyldumeðlim sem telur viðkomandi hafa svert ættarnafnið. Stærsti hluti þeirra eru konur.

Morð Qandeel hefur fengið gífurlega fjölmiðlaathygli í Pakistan og konur um allt land hafa mótmælt hefndarmorðum. Málið gæti orðið til þess að yfirvöld í landinu taki harðar á slíkum málum.

Ögraði félagslegum normum

Baloch var stjarna í heimalandi sínu og var oft kölluð hin pakistanska Kim Kardashian.  Hún starfaði sem fyrirsæta og hafði nýverið reynt fyrir sér á tónlistar- og leiklistarsviðinu. Hún nýtti samfélagsmiðla til þess að koma sjálfri sér á framfæri og ögraði þar með félagslegum normum í Pakistan. Hún birti til dæmis myndir af sér fáklæddri, talað opinskátt um kynferðismál, daðrað við fræga krikkettleikara og ýmislegt annað.

Hún talaði líka opinskátt um réttindi kvenna í Pakistan og sagði íbúa landsins þurfa að venjast nýjum tímum.

Baloch vissi vel að slíkt er litið hornauga í Pakistan en ögraði engu að síður. Hún hafði nýlega flúið til foreldra sinna eftir að myndband poppstjörnunnar Aryan Khan, sem sýndi hana dansa á ögrandi hátt, var frumsýnd í landinu. Í kjölfarið hafði henni borist morðhótanir og ákvað hún því að flýja til fjölskyldu sinnar í Punjab á meðan öldurnar lægðu.

Rétt fyrir morðið hafði BBC fjallað um hana í myndbandi á veg sínum. Það má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×