Innlent

Bróðir konunnar segir að um hræðilegt slys hafi verið að ræða

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Konunni er haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans.
Konunni er haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans. vísir/stefán
„Það er ekkert sem bendir til annars en að þetta hafi verið slys. Það er alveg á hreinu. Það sést á myndbandsupptöku og við vitum að þennan dag ætlaði hún að hitta manneskju þarna við bryggjuna,“ segir Pétur Ingiberg Smárason, bróðir konunnar sem fannst í Reykjavíkurhöfn sunnudaginn 18.janúar.

Rannsókn málsins er á lokastigi að sögn lögreglu sem vill þó ekki gefa frekari upplýsingar um málið að svo stöddu. Lögregla staðfestir þó að atvikið hafi náðst á myndbandsupptöku. Sjónarvottar á nærliggjandi veitingastað urðu þess varir þegar bíllinn hafnaði í sjónum og gerðu lögreglu vart við. Í kjölfarið upphófst leit lögreglu en talið er að konan hafi verið í sjónum í allt að 30 mínútur áður en hún fannst.

Mikill viðbúnaður var við Reykjavíkurhöfn sunnudaginn 18. janúar. Talið er að konan hafi verið í sjónum í allt að hálftíma.vísir/stefán
„Hún kom inn á bryggjuna við hafnarbakkann og var að snúa bílnum við. Það var alveg flughált þarna. Hún virtist ekki ná að stöðva bílinn og um leið og framdekkin fóru yfir kantinn, sem er ekki hár, einungis nokkrir sentímetrar, þá hvolfdi bílnum og hann fór út í,“ segir Pétur sem sjálfur hefur rætt við nokkur vitni.

Konan er 35 ára, móðir sautján ára stúlku. Henni hefur verið haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans frá því að atvikið átti sér stað. Að sögn Péturs er systir hans glöð, ung kona sem á framtíðina fyrir sér. „Þetta er auðvitað bara hræðilegt, algjörlega, og hefur skiljanlega tekið mikið á alla okkar fjölskyldu,“ segir Pétur að lokum.


Tengdar fréttir

Konan í lífshættu

Konan sem fannst í Reykjavíkurhöfn fyrr í dag er á gjörgæsludeild og í lífshættu.

Bíll fór út í Reykjavíkurhöfn

Mikill viðbúnaður var við Reykjavíkurhöfn, þar sem bíll fór út í höfnina fyrir rétt fyrir klukkan 17 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×