Skoðun

Brjótum ekki hvert annað

Sólveig Rós skrifar

Þegar flestir heyra hugtakið kynbundið ofbeldi rennur hugurinn til ofbeldis karla gegn konum. Það er mjög skiljanlegt enda slíkt ofbeldi gífurlegt vandamál bæði á heimsvísu og á Íslandi. Sögur þeirra hundraða kvenna sem hafa deilt reynslu sinni af kynferðislegu ofbeldi á undanförnum misserum sýna það. Okkur er þó enginn greiði gerður með að einblína um of á þessa tegund kynbundins ofbeldis. Þá yfirsést okkur ýmislegt sem einnig þarfnast athygli.

Tökum dæmi:

Kona beitt kynferðisofbeldi.

Hommi laminn fyrir utan skemmtistað.

Lesbíu nauðgað til að „laga hana”.

Trans kona myrt fyrir að vera sú sem hún er.

Intersex barn sett í ónauðsynlega kynfæraaðgerð.

Trans unglingi neitað um hormónameðferð.

Óléttri konu neitað um fóstureyðingu.

Strákur lagður í einelti fyrir að vera ekki nógu karlmannlegur.

Tvíkynhneigðum karlmanni sagt að hætta þessu rugli, hann sé bara hommi.

Kynsegin manneskja er miskynjuð.

Nektarmyndum dreift af unglingsstúlku án hennar samþykkis.

Trans manneskja neydd í ófrjósemisaðgerð til að fá kyn sitt viðurkennt af yfirvöldum.

Karlkyns þolanda kynferðisofbeldis ekki trúað því „karlar vilja alltaf kynlíf”.

Trans kona útilokuð úr kvennarými því hún er ekki „alvöru” kona.

Allt ofbeldi sem beinist gegn einstaklingum vegna kyns þeirra eða á rætur sínar að rekja í valdaójafnvægi kynja má kalla kynbundið ofbeldi. Þegar við horfum á kyn í víðu samhengi svo það taki til þeirra væntinga sem eru gerðar til hvers kyns þá getur það þýtt ansi margt. Með þessu er þó ekki verið að útvatna hugtakið kynbundið ofbeldi. Þvert á móti getum við skilið það betur og þar af leiðandi betur tekist á við það ef við skoðum það frá fleiri hliðum.

Dæmin hér að ofan eru framin af einstaklingum eða stofnunum og eru allt frá því að vera aðfinnslur og yfir í mjög gróf brot, en öll tengjast þau. Rauði þráðurinn er að þegar einstaklingar voga sér út fyrir þann litla kassa sem hefðbundin karlmennska eða hefðbundinn kvenleiki boðar þá eykst hættan á ofbeldi. En ekki bara þá: þau sem halda sig samviskusamlega í sínum kassa eiga einnig á hættu ofbeldi, sérstaklega ef sá kassi er neðarlega í valda- og virðingarstiga kynjakerfisins.

Við búum við ótal reglur - skrifaðar og óskrifaðar - sem segja okkur hvernig við eigum að haga okkur, klæðast, elska, fjölga okkur, tala og vera, eftir því hvaða kyni okkur var úthlutað við fæðingu. Fæst náum við að fara eftir þeim öllum. Sum okkar finna sér góðan samastað langt frá þessum væntingum en mörg okkar taka þátt í því að passa að vinir okkar, samstarfsfélagar og sérstaklega börnin okkar séu nú örugglega í sínum kassa. Þetta heitir drusluskömmun, hinseginfælni, transfóbía. „Vertu nú dálítið dömuleg,“ „strákar gráta ekki,“ „bíddu, ertu karl eða kona?“ Öflugustu verkfærin eru þöggun og skömm.

Þegar við breytum valdahlutföllunum milli kynjanna í víðu samhengi þá kollvörpum við grundvelli kynbundins ofbeldis. Kynfrjálsara samfélag er okkur öllum í hag. Margbreytileiki okkar er ekki vandamál. Kassarnir eru vandamálið. Brjótum þá en ekki hvert annað.

Þessi grein er hluti af sextán daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.




Skoðun

Sjá meira


×