Skoðun

Brjóst sem drepa

Þórhildur Ída Þórarinsdóttir skrifar
Ef þú gætir fengið að vita með einfaldri blóðprufu hvort þú hefðir krabbameinsgen, myndirðu gera það?

Já, af því að þú myndir vilja taka málin í þínar hendur til að aftengja þessa tímasprengju, til dæmis fara í eftirlit tvisvar á ári eða fyrirbyggjandi aðgerðir til að lifa lengur eða nei, ég gæti ekki afborið svoleiðis fréttir.

Hér er átt við þekkt stökkbreytt krabbameinsgen, BRCA1 og BRCA2. BR merkir „breast“ og CA er „cancer“.­ Á heimasíðu Memorial Sloan Kettering Cancer Center má sjá tölfræði um að konur með BRCA2 hafa til dæmis 50-85% líkur á brjóstakrabbameini og 16-27% líkur á eggjastokkakrabbameini en karlar auknar líkur á brjósta- og á blöðruhálskrabbameini.

Áhætta á þessum krabbameinum er talin mismikil í íslenskum fjölskyldum en bæði kyn hafa aukna hættu á briskrabbameini (sjaldgæft). Ísland er í þeirri sérstöðu að þessi genabreyting er algengari hér á landi en hjá mörgum nágrannaþjóðum okkar og talið er að 2.400 Íslendinga hafi þessar stökkbreytingar.

Það er kominn tími til að við sem „viljum vita“ fáum að nýta okkur vísindin og þeir sem „vilja ekki vita“ fái að vera í friði. Að sjónarmið beggja séu virt. Við getum nú þegar heimilað líffæragjöf af heimasíðu Landlæknis og við getum líka ákveðið að heimila ekki líffæragjöf. Þannig ætti það að vera með BRCA1 og BRCA2.

Ef heilbrigðiskerfið beinir sjónum sínum að forvörnum í stað þess að bíða eftir að fólk greinist mætti fækka ótímabærum dauðsföllum, krabbameinstilfellum, draga úr kostnaði og auka lífsgæði, svo ekki sé minnst á sársauka og sorg.

Fólk getur verið of önnum kafið, of ódauðlegt eða bara treystir sér ekki til að fá upplýsingar en mitt sjónarmið er að þekking skipti sköpum og ég hvet alla sem hugrekki hafa til að skoða erfðaefnin sín.

Við höfum tækifæri til að stjórna krabbameinslíkum á þann hátt sem sumir ættingjar okkar fengu aldrei tækifæri til.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×