Lífið

Breytti æðagúlpi í heila í listaverk

Baldvin Þormóðsson skrifar
David Young listamaður
David Young listamaður
„Ég notaði þessa sýningu smá til að afgreiða þetta mál,“ segir David Young en hann opnar sýningu sína Phenomena aftur á Menningarnótt en sýningin var útskriftarverkefni hans úr Listaháskólanum árið 2005.

„Verkið er byggt á skannamyndum af heilanum mínum frá því að ég var veikur árið 2000 og 2001. Þetta er mynstur sem ég bjó til úr þessum myndum,“ segir David, en hann greindist með æðagúlp í heilanum árið 2000.

Nafn sýningarinnar hefur einnig mikla þýðingu þar sem það var talið vera kraftaverk, eða phenomena, að hann læknaðist. David er nú að handmála á myndirnar fyrir sýninguna.

„Ég greindist nýlega með krabbamein og ákvað því að sýna myndirnar aftur,“ segir David sem lítur gjarnan á björtu hliðarnar og segist vera spenntur fyrir því að fá myndir af krabbameininu til þess að gera eitthvað svipað við þær.

David heldur sýninguna ásamt vinkonu sinni, vöruhönnuðinum Estheri Íri, sem mun sýna UNDUR-vörur fyrir heimilið, en hún hefur að undanförnu verið að þróa sína fyrstu vörulínu sem samanstendur af sjö skemmtilegum hlutum fyrir heimilið.

„Meginmarkmiðið er að gleðja og fá fólk til að brosa meira,“ segir Esther um vörurnar, en aðaláhersla hennar er að hanna góðar lausnir fyrir heimilið.

Tvíeykið mun einnig frumsýna saman UNDUR-púða sem eitt verka Davíðs prýðir, en hann setur fram myndir sínar á öðruvísi hátt en hann gerði árið 2005 þar sem hann handmálaði á myndirnar í þetta skipti.

„Fyrst var þetta bara mynd tekin af heilanum, hún skönnuð inn, prentuð út og þrykkt á efni en núna vildi ég búa til myndir til þess að hengja upp á vegg,“ segir David.

Myndirnar munu hanga í versluninni Noland að Laugavegi 12.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×