Innlent

Breytt veiðigjöld munu skila átta milljörðum í ríkissjóð

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. vísir/valgarður
Frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á veiðigjöldum var afgreitt úr þingflokkum sjálfstæðis- framsóknarmanna í dag. Frumvarpið verður lagt fram á Alþingi á allra næstu dögum en þingheimur hefur átta daga til að afgreiða frumvarpið. Breytt veiðigjöld munu skila átta milljörðum í ríkissjóð.

Ljóst er að umfangsmikið verkefni bíður þingmönnum enda eru fáir þingdagar eftir og málið umfangsmikið. Áætlað er að veiðigjöld nemi 9,5 milljörðum króna á næsta fiskveiðiári, án tillits til frádráttarliða, og að gefnum forsendum um að heildaraflamagn verði um fimm hundruð og fimmtán þúsund þorskígildi.

Frá þessu dragast frádráttarliðir svonefnds frítekjumarks. Sá frádráttur gæti numið um einum komma fimm milljörðum. Þannig yrðu tekjur ríkissjoðs af veiðigjöldum um átta milljarðar.

Veiðigjaldsnefnd hefur lagt fram líkan sem skilar svonefndum afkomustuðlum fyrir veiðar á hverri fisktegund. Sigurður Ingi Jóhannsson, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að þetta sé dæmi um málamiðlanir sem krafa hafi verið um og séu nú að finna í frumvarpinu.

Sigurður sagði það vera vonbrigði að ná ekki að koma fram með þá heildarlausn sem unnið hafi verið að. Það sé þó skynsamlegt að prófa gildi afkomustuðla við álagningu veiðigjalda í eitt ár áður en samningur um veiðirétt og leigugjald er innleiddur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×