Innlent

Breytt fyrirkomulag hjá Sorpu

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá skrifstofum Sorpu.
Frá skrifstofum Sorpu. Vísir/Pjetur
Ekki er lengur leyfilegt að henda svörtum ruslapokum í pressugáma á endurvinnslustöðvum Sorpu og aðeins verður tekið við úrgangi í glærum pokum. Breytingin er liður í þeirri áætlun Sorpu að leggja áherslu á að pappír, pappi, tau og klæði fari í endurvinnslufarveg í stað urðunar.

Í tilkynningu frá Sorpu segir að urðun á vefnaðarvörum og pappírsefnum feli ekki aðeins í sér sóun á hráefnum, heldur kosti förgun þeirra samfélagið meira en ef þau færu í endurvinnslu.

Þær breytingar ganga einnig í garð í þessum mánuði að söfnun glers hefst á 37 grenndarstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar geta skilað hvers kyns gleri sem fellur til á heimilum, til dæmis sultukrukkum eða glerflöskum án skilagjalds, í glergáma.

Sorpa segir að glergámar verði settir á allar grenndarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu og stefnt að því að ljúka þeirri innleiðingu árið 2019. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Sorpu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×