Innlent

Breytingar stokka upp störf

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Breytingarnar eru afrakstur úttektar Capacent.
Breytingarnar eru afrakstur úttektar Capacent. vísir/gva
„Það verða óhjákvæmilega breytingar á störfum einhverra,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.

„En það verður reynt að komast hjá uppsögnum en það getur komið til þess að gera þurfi samkomulag við einhverja um starfslok en það er erfitt að segja til um það að svo stöddu.“

Rósa Guðbjartsdóttir
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í gær breytingar á stjórnskipulagi Hafnarfjarðar.

Breytingarnar gera ráð fyrir stofnun fjögurra nýrra þjónustusviða í stað þeirra gömlu. 

„Með þessari sameiningu sviða og færslu á milli þeirra þá er uppleggið að nýta starfskrafta betur en hefur verið. Það er hollt að fara reglulega í gegnum skipulagið og rekstur og leita allra leiða til úrbóta,“ segir hún. 

Bæjarstjóri Hafnarfjarðar hefur umsjón með öllum nauðsynlegum breytingum en honum er einnig falið að útbúa samskiptareglur milli kjörinna fulltrúa og starfsmanna bæjarins. Auk þess er hafnarþjónustan færð undir verksvið bæjarstjóra. Fulltrúar minnihlutans gagnrýndu fyrirkomulag fundarins harðlega. Minnihlutinn greiddi ekki atkvæði með tillögum meirihlutans en hefur gert fyrirvara um lögmæti fundarins og mun láta á það reyna með kæru til innanríkisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×