Innlent

Breyting á eignarhaldi Forlagsins

Birta Svavarsdóttir skrifar
Jóhann Páll Valdimarsson, fráfarandi útgefandi Forlagsins.
Jóhann Páll Valdimarsson, fráfarandi útgefandi Forlagsins. vísir/stefán
Jóhann Páll Valdimarsson, útgefandi Forlagsins, hefur selt 42.5% hlut sinn í fyrirtækinu. Samkvæmt samkomulagi hluthafa mun Forlagið kaupa hlutinn sjálft en við það verður bókmenntafélagið Mál og menning aðaleigandi félagsins ásamt Agli Erni Jóhannssyni. Nýr útgefandi Forlagsins verður Hólmfríður Úa Matthíasdóttir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Forlaginu nú í dag.

Jóhann Páll mun gegna fullu starfi til áramóta eins og verið hefur. Auk þess mun hann gegna ráðgjafastörfum fyrir Forlagið að minnsta kosti næstu tvö árin.

Engar breytingar eru fyrirhugaðar á rekstri og starfsmannahaldi Forlagsins vegna þessa. Egill Örn Jóhannsson mun áfram gegna starfi framkvæmdastjóra eins og verið hefur.

Forlagið gefur út bækur undir nafni JPV útgáfu, Máls og menningar, Vöku-Helgafells og Iðunnar auk þess sem það starfrækir bókabúð á Fiskislóð.

Jóhann Páll starfaði hjá bókaúgáfunni Iðunni 1974-84 og stofnaði þá Forlagið og var útgefandi þess til ársins 2000. Þá stofnaði hann JPV útgáfu ásamt Agli Erni Jóhannssyni og fleirum. Árið 2007 sameinaðist JPV útgáfa bókahluta Eddu, sem bókmenntafélag MM hafði þá nýverið fest kaup á og sem hafði á að skipa Máli og menningu, Vöku-Helgafelli og Iðunni. Sameinað fyrirtæki hefur síðan borið heitið Forlagið.

Hólmfríður Matthíasdóttir hefur starfað lengi við bókaútgáfu á Spáni og hérlendis. Hún hefur stýrt réttindastofu Forlagsins frá stofnun félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×