Erlent

Bretar taka hygge í formlega notkun

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þetta er nokkuð hygge, er það ekki?
Þetta er nokkuð hygge, er það ekki?
Þó nokkur ný orð bættust í Oxford-orðabókina í dag þegar hún var endurnýjuð, líkt og gert er á hverjum ársfjórðungi. Danska orðið hygge er þeirra á meðal.

Danska orðið hygge hefur verið að sækja í sig veðrið undanfarin misseri, þá sérstaklega í Bretlandi og Bandaríkjunum. Það var tilnefnt sem orð ársins árið 2016 hjá Oxford-orðabókinni en hefur hins vegar ekki fengið pláss í henni fyrr en nú.

Hygge merkir að skapa þægilegt andrúmsloft vellíðunar og er sagt nokkurs konar einkenni danskrar menningar, þar sem fólk lifi í núinu og njóti þess sem lífið hafi upp á að bjóða.

Ekki það sama og að hafa það kósý

Danskir fjölmiðlar fjalla um málið og segja marga telja orðið hafa sömu merkingu og að hafa það kósý – eða notalegt – sem sé hins vegar alrangt. Þá leiðrétta þeir frændur sína Breta sem flestir segi „higgy“ en bæta það upp með nokkurs konar talkennslu í greinarskrifum sínum þar sem þeir taka það fram að ypsilon-ið sé borið fram sem u.

Vinsældir orðsins eiga rætur sínar að rekja til hugljúfrar fréttar á vef breska ríkisútvarpsins árið 2015. Fréttin fjallaði um breskan framhaldsskóla sem hóf að kenna nemendum sínum hugmyndafræði hygge. Þar er merkingu orðsins lýst sem svo:

„Þú situr við arineld á kaldri vetrarnóttu, í lopapeysu með heitt jólaglögg, á meðan þú strýkur hundinum, umkringdur kertaljósum.“

Dönum þótti Bretum takast nokkuð vel til við þýðinguna, en þess ber að geta að Danmörk er ein hamingjusamasta þjóð heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×