Erlent

Bretar og Frakkar munu reisa fjögurra metra háan múr í Calais

Atli Ísleifsson skrifar
Múrinn verður hannaður til að koma í veg fyrir að flóttamenn komist inn á akbrautina og klifri um borð í vörubíla og önnur farartæki á leið sinni til Bretlands.
Múrinn verður hannaður til að koma í veg fyrir að flóttamenn komist inn á akbrautina og klifri um borð í vörubíla og önnur farartæki á leið sinni til Bretlands. Vísir/AFP
Bresk stjórnvöld hyggjast reisa fjögurra metra háan múr í frönsku hafnarborginni Calais til að stemma stigu við straum flóttafólks til Bretlands.

Múrinn verður um kílómetri að lengd og liggja meðfram akbraut sem liggur að höfninni.

„Fólk er enn að komast í gegn,“ sagði Robert Goodwill, ráðherra innflytjendamála, þegar hann kom fyrir fastanefnd breska þingins sem fjallar um innanríkismál. „Við höfum þegar komið upp girðingu. Nú komum við upp múr.“

Í frétt Independent segir að múrinn verði hannaður til að koma í veg fyrir að flóttamenn komist inn á akbrautina og klifri um borð í vörubíla og önnur farartæki á leið sinni til Bretlands.

Goodwill segir að framkvæmdir muni hefjast fljótlega og að bresk og frönsk stjórnvöld hafi náð saman um framkvæmdina sem sé áætluð kosta um 17 milljónir punda, um 2,6 milljarða króna.

Mikill fjöldi flóttafólks hefur síðustu mánuði safnast saman í Calais þar sem þeir hafa beðið færis eftir að komast yfir Ermarsundið og til Bretlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×