Erlent

Bretar munu bíta frá sér verði þeim boðinn slæmur Brexit samningur

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands.
Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands. Vísir/AFP
Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands, segir að Bretar muni bíta frá sér í komandi Brexit samningaviðræðum við Evrópusambandið, fallist sambandið ekki á að gera fríverslunarsamning við landið. Guardian greinir frá.

Í yfirlýsingunni sem beindist til leiðtoga Evrópusambandsins, segir Hammond að Bretar muni gera hvað sem þarf að gera, til þess að tryggja samkeppnishæfni landsins fari svo að landið verði án fríverslunarsamnings við Evrópusambandið.

„Ef það er einhver í Evrópusambandinu sem heldur að Bretland muni bara sætta sig við að lúta í lægra haldi ef samningar muni ekki nást við sambandið, að þá er það ekki að fara að gerast.“

„Breska þjóðin býr yfir miklum baráttuanda og mun berjast. Við munum gera fjölda fríverslunarsamninga við þjóðir út um allan heim. Við munum stunda viðskipti út um allan heim og við munum gera hvað sem er til þess að tryggja samkeppnishæfni Bretlands.“

Fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, John Major, hafði áður kallað eftir því að ráðamenn ríkisstjórnarinnar í Bretlandi myndu slá á væntingar almennings þar í landi og halda loforðum um góða útkomu í komandi samningaviðræðum í lágmarki. Ljóst er að Hammond varð ekki við beiðni Major.

Hammond tók þó fram að Bretar myndu standa við allar skuldbindingar sínar gagnvart Evrópusambandinu og þar með talið borga þau gjöld sem upp koma þegar landið yfirgefur sambandið.

„Við erum að fara út í samningaviðræður. Við búumst við því að geta náð fram fríverslunarsamningi við vini okkar í Evrópusambandinu, en þeir verða að hafa það á hreinu að sá valmöguleiki að Bretland einangrist á alþjóðavettvangi, er einfaldlega ekki til staðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×