Erlent

Bretar kjósa um framtíð sína í ESB þann 23. júní

Atli Ísleifsson skrifar
David Cameron telur hagsmunum Bretlands best borgið innan ESB.
David Cameron telur hagsmunum Bretlands best borgið innan ESB. Vísir/AFP
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur tilkynnt að þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Bretlands í Evrópusambandinu verði haldin þann 23. júní næstkomandi.

Cameron ræddi við fjölmiðla á tröppum Downing-strætis 10 í hádeginu þar sem hann sagði að útganga Bretlands úr ESB myndi ógna efnahagslegu öryggi og þjóðaröryggi landsins.

Hann sagði ákvörðunina um áframhaldandi veru eða útgöngu vera einhverja þá mikilvægustu sem breska þjóðin hafi staðið frammi fyrir og snúi að því hvernig land hún vilji skapa fyrir komandi kynslóðir.

„Ég elska ekki Brussel. Ég elska Bretland,“ sagði Cameron og ítrekaði að hann vildi sjá ýmsar breytingar gerðar á Evrópusambandinu. „Verkefnið að gera umbætur á Evrópu endar ekki með samningi gærdagsins. Ég mun aldrei fullyrða að Bretland bjargi sér ekki utan sambandsins. Um það snýst ekki málið. Spurningin er hvort við verðum öruggari, öflugri og í betri stöðu með því að vinna saman innan breytts ESB eða ein á báti utan þess.“

Cameron sagði ráðherra ríkisstjórnar sinnar frjálst að berjast með eða gegn aðild landsins.

Samningurinn um breytta aðildarskilmála Bretlands var rædd í bresku ríkisstjórninni í morgun og verður til umræðu á þinginu eftir helgi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×