Erlent

Bretar hefja Brexit-ferlið fyrir lok marsmánaðar 2017

Atli Ísleifsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/AFP
Bresk stjórnvöld munu hefja útgönguferli sitt úr Evrópusambandinu í síðasta lagi fyrir lok marsmánaðar 2017. Frá þessu greinir breska blaðið Guardian.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að Bretlandsstjórn muni þar með virkja 50. grein Lissabon-sáttmála ESB fyrir marslok. Hefst þá tveggja ára útgönguferli sem þýðir að Bretar munu líklegast yfirgefa sambandið vorið 2019, ári fyrir næstu þingkosningar í landinu.

Stjórnvöld á Ítalíu, Frakklandi og Þýskalandi hafa áður lýst yfir þeirri skoðun að ekki skuli samið við Breta um skilmála útgöngu og um framtíðarsamband ESB og Bretlands fyrr en Bretar hafi virkjað 50. greinina.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, greindi frá því eftir að hafa átt samtöl við May í síðasta mánuði að Bretar yrðu líklegast reiðubúnir að virkja greinina í „janúar eða febrúar á næsta ári“.

Breska þjóðin ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar að landið skyldi segja upp aðild sinni að ESB.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×