Innlent

Bretar gefa Landsbjörg bifreið til nota í náttúruhamförum

Randver Kári Randversson skrifar
Bifreiðin var afhent Landsbjörg í morgun.
Bifreiðin var afhent Landsbjörg í morgun. Vísir/Vilhelm
Ríkisstjórn Bretlands hefur gefið Slysavarnafélaginu Landsbjörg sérhæfða FODEN DROPS vörubifreið til þess að auðvelda félaginu að bregðast skjótar við óvissuátandi vegna náttúruhamfara á Suðurlandi. Bifreiðin mun verða staðsett á Vík í Mýrdal og vera í umsjón Björgunarsveitarinnar Víkverja. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.

Síðustu árin hafa björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurlandi þurft að fást við mjög erfið verkefni tengd náttúruhamförum og má þar á meðal nefna jökulhlaup í ám á svæðinu. Skemmst er minnast þegar brúin yfir Múlakvísl brast og ófremdarástand skapaðist í ferðaþjónustu og samgöngum í landshlutanum.

Afhendingartími bifreiðarinnar er sérstaklega hentugur sé tekið mið af óvissuástandi því sem Almannavarnir hafa lýst yfir við Múlakvísl og Sólheimajökul. 

Hr. Stuart Gill, sendiherra Bretlands á Íslandi afhenti Landsbjörg bifreiðina með formlegum hætti kl. 11 í morgun á athafnasvæði Samskipa við Sundahöfn. Samskip gaf félaginu flutning á bifreiðinni hingað til lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×