Erlent

Bretar fá mjög lítinn tíma til að semja við Evrópusambandið

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Bretar fá innan við átján mánuði til að semja við Evrópusambandið um útgöngu, fari svo að bresk stjórnvöld virki útgönguákvæði sáttmála sambandsins.

Þetta er styttri tími en til þessa hefur verið gert ráð fyrir. Samkvæmt 50. grein Lissabonsáttmálans eiga tvö ár að líða frá því sótt er um útgöngu þangað til samningur um hana verður afgreiddur.

Michel Barnier, sem verður aðalsamningamaður Evrópusambandsins í viðræðum við Breta, segir hins vegar að þegar útgönguákvæðið hefur verið virkjað þurfi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tíma til undirbúnings, og svo þurfi að gera ráð fyrir fimm mánuðum í lokin fyrir umfjöllun í leiðtogaráði Evrópusambandsins, Evrópuþinginu og breska þjóðþinginu, sem öll þurfa að fullgilda samninginn.

Hæstiréttur Bretlands fjallar þessa dagana um það hvort breska stjórnin geti virkjað útgönguákvæði Evrópusambandsins án aðkomu breska þjóðþingsins.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×