Erlent

Bretar fá ekki að handvelja áframhaldandi aðild að innri markaði ESB

Atli Ísleifsson skrifar
Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins segja að ekki verði samið um að Bretar geti gengið úr sambandinu og handvalið að vera samt áfram aðilar að innri markaðnum.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, greindi frá þessu að loknum morgunverðarfundi leiðtoga allra aðildarríkja, að Bretlandi frátöldu, í Brussel í morgun.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, segir að öll þau ríki sem vilji aðild að innri markaðnum þurfi „án undantekninga“ að fara að ströngum skilyrðum.

Í frétt BBC segir að leiðtogarnir hafi ítrekað að ekki verði farið í formlegar eða óformlegar viðræður við Breta áður en þeir ákveða að beita ákvæði 50. greinar sáttmála sambandsins um útgöngu.

„Við vonumst til að það gerist eins fljótt og auðið er,“ sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari.

Tusk greindi einnig frá því að leiðtogar allra aðildarríkjanna 28 muni funda á leiðtogafundi í slóvakísku höfuðborginni Bratislava þann 16. september til að ræða útgöngu Breta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×