Erlent

Bretar andsnúnir áformum May

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/Getty
Einungis sextán prósent Breta telja að Theresa May forsætisráðherra standi sig vel þegar kemur að komandi útgöngu ríkisins úr Evrópusambandinu. Þetta kom fram í niðurstöðum könnunar sem YouGov birti í gær.

Um helmingur þjóðarinnar telur að áform May um áframhaldandi aðild að innri markaðnum og tollabandalaginu, gegn ýmsum málamiðlunum, eftir útgöngu séu hreinlega slæm fyrir Bretland. Þá sögðust einungis tíu prósent geta hugsað sér að styðja áformin ef þau væru sett í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessi stefna May er einnig umdeild innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Þrír ráðherrar sögðu af sér í kjölfar samþykktar hennar, meðal annars Boris Johnson, þá utanríkisráðherra. Dominic Raab, nýr útgöngumálaráðherra, sagði í gær að May væri enn að reyna að sannfæra ráðherra um að stefnan væri sú besta.

Ýmislegt fleira kom fram í fyrrnefndri könnun. Meðal annars sögðu 34 prósent aðspurðra að Boris Johnson myndi standa sig betur en May, fengi hann að sjá um útgöngumálin. Afstaðan gagnvart Brexit virðist þó lítið hafa breyst og myndi um helmingur greiða atkvæði gegn útgöngu, yrði haldin önnur þjóðaratkvæðagreiðsla.

Þá virðist málið hafa laskað Íhaldsflokkinn svo mjög, og reyndar aðra flokka líka, að þriðjungur aðspurðra sagðist geta hugsað sér að kjósa nýjan íhaldsflokk, verði slíkur stofnaður.

Sunday Times greindi frá því í gær að Nigel Farage, áður formaður UKIP sem barðist af eldmóði fyrir útgöngunni, ætti nú í viðræðum við Steve Bannon, áður ráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta, um stofnun nýs íhaldsafls. 


Tengdar fréttir

Blæs lífi í Brexit

Dominic Raab, nýr útgöngumálaráðherra Breta sem leiðir samninganefnd Bretlands í viðræðunum um útgöngu úr ESB, sagðist í Brussel í gær vilja kynda upp í viðræðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×