Viðskipti erlent

Breska ríkið selur hlut sinn í Eurostar-lestinni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eurostar-lestin tengir Bretland við meginland Evrópu í gegnum Ermarsundsgöngin.
Eurostar-lestin tengir Bretland við meginland Evrópu í gegnum Ermarsundsgöngin. Vísir/Getty
Breska ríkið hyggst selja 40% hlut sinn í Eurostar-lestinni, segir George Osborne fjármálaráðherra Bretlands. Guardian greinir frá.

Lestin, sem getur náð 320 kílómetra hraða á klukkustund, fer frá London til meginlands Evrópu í gegnum Ermarsundsgöngin. París og Brussel eru á meðal áfangastaða lestarinnar.

Osborne segir að útboð hefjist í lok þessa mánaðar og vonast hann til að fá um 300 milljónir punda fyrir söluna. Fjármálaráðherrann segir að peningarnir verði notaðir til að greiða niður skuldir ríkisins. Að sögn Osborne er stefnt á að selja ríkiseignir fyrir um 20 milljarða punda fyrir árið 2020 svo greiða megi skuldir.

Breska ríkið hefur átt 40% hlut í Eurostar síðan lestin byrjaði að ganga árið 1994. Franska ríkisfyrirtækið SNCF á 55% hlut í Eurostar og belgíska ríkisfyrirtækið SNCB á 5% hlut.

Frá því lestin byrjaði að ganga fyrir 20 árum hefur hún flutt meira en 145 milljónir farþega milli Bretlands og meginlands Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×