Enski boltinn

Brendan Rodgers: Ég veit vel að ég þarf að fara vinna leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool.
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool. Vísir/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, tók fulla ábyrgð á tapi liðsins á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í gær en Liverpool, sem komst í 1-0 í leiknum,  tapaði leiknum 3-1 og er þar með búið að tapa þremur deildarleikjum í röð.

„Við erum mjög vonsviknir með bæði frammistöðuna og úrslitin og þetta er eitthvað sem ég sem knattspyrnustjóri verð að taka fulla ábyrgð á," sagði Brendan Rodgers við BBC.

Liverpool hefur aðeins unnið einn af síðustu fimm deildarleikjum og er nú 18 stigum á eftir toppliði Chelsea. Framundan er leikur á móti Ludogorets Razgrad í Meistaradeildinni í Búlgaríu á miðvikudaginn.

„Við verðum að finna lausn fljótt því þetta er mjög svekkjandi og við getum bara kennt okkur sjálfum um. Við þurftum að gera breytingar í sumar og erum nánast að byggja upp lið en við verðum samt að gera betur en þetta," sagði Rodgers.

„Liðið hefur lent á verri kafla undir minni stjórn og eina liðin út úr þessu er að vinna að því saman. Við verðum að bæta okkur og það mjög fljótt því það er nóg af leikjum framundan," sagði Rodgers.

„Ég er ekki það hrokafullur að halda það að ég haldi starfinu sama hvað gerist. Ég verð að fara að vinna leiki. Ég er í góðu sambandi við eigendurna. Við erum hreinskilnir og opnir þegar þegar við tölum saman. Við verðum samt að fara ná úrslitum og standa okkur betur. Ég vil gera mitt besta og þarf núna að leggja enn meira á mig," sagði Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×