Innlent

Bregðast þurfi við auðveldu aðgengi að lyfseðlum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Íslendingar eiga þann vafasama heiður að eiga Norðurlandametið í notkun svefnlyfja.
Íslendingar eiga þann vafasama heiður að eiga Norðurlandametið í notkun svefnlyfja. vísir/getty
Vísbendingar eru um að meðferðartími á notkun svefnlyfja Íslendinga hafi lengst og skammtar lyfjanna stækkað. Það gæti skýrst af niðurskurði og auknu álagi í heilbrigðiskerfinu sem gæti hafa orðið þess valdandi að læknar hafi minni tíma til að fylgja sjúklingum sínum eftir og skrifi jafnvel upp á fjölnota lyfseðla. Þetta eru niðurstöður rannsóknar Ásu Guðrúnar Guðmundsdóttur, MS-nema í lyfjafræði við Háskóla Íslands.

Ása Guðrún gaf Vísi góðfúslegt leyfi til að birta niðurstöður úr verkefni sínu, sem ber heitið „Umframnotkun róandi- og svefnlyfja á Íslandi á árunum 2003-2013. Þar kemur fram að umframnotkun hafi aukist á tímabilinu, en með umframnotkun er átt við það sem tekið er af lyfi umfram það sem ráðlagt er. Ása segir að ýmsar mögulegar skýringar kunni að liggja að baki þessari hækkun.

Sjá einnig: Um 400 íslensk börn nota svefnlyf við aukaverkunum ofvirknilyfja

Hætta á misnotkun

„Til að mynda kemur upp í hugann niðurskurður og álag í heilbrigðiskerfinu. Þetta getur leitt til þess að læknar hafi minni tíma til að fylgja sjúklingum eftir og skrifi jafnvel upp á fjölnota lyfseðla,“ sagði Ása er hún varði verkefni sitt fyrr í þessum mánuði. Hún segir að þegar svefnlyfjameðferð sé orðin löng, og/eða skammtar eru stærri en ráðlagt er, geti það bent til rangrar meðferðar.

Sjá einnig: Ódýrara að kaupa fleiri töflur en færri

„Undirliggjandi sjúkdómur getur leitt til svefnleysis og mikilvægt er að hann sé meðhöndlaður. Svefn- og róandi lyf eru ávanabindandi og þar af leiðandi er ákveðin hætta á misnotkun,“ segir hún og bætir við að hún telji auðveldan aðgang að endurnýjun lyfseðla geta haft mikil áhrif. Það sé alvarlegt vandamál í heilbrigðiskerfinu sem þurfi að bregðast við.

Norðurlandamet í notkun svefnlyfja

Íslendingar eiga þann vafasama heiður að eiga Norðurlandametið í notkun svefnlyfja. Hér á landi er svefnlyfjanotkun tvisvar til þrisvar sinnum meiri en annars staðar á Norðurlöndum en læknar og starfsmenn Landlæknisembættisins hafa lýst yfir áhyggjum vegna þessa. Nú vinnur þverfaglegt teymi við Háskóla Íslands að því að kortleggja svefnvenjur Íslendinga, og munu meðal annars athuga áhrif misræmis sólar og staðartíma á svefnvenjur Íslendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×