Skoðun

Bréf til mennta- og menningarmálaráðuneytis

Olga Hrönn Olgeirsdóttir skrifar
Sumarfríið er á enda og skólar landsins iðandi af kröftugum nemendum. Eitt af fyrstu verkefnum haustsins er að koma reglulegum lestri á koppinn og mikilvægt að allir fái lesefni sem hæfir lestrargetu og áhuga hvers og eins. Sem betur fer hafa nemendur nokkuð sterkar skoðanir á því sem þeim finnst áhugavert og vilja gjarnan hafa eitthvað um það að segja hvaða bók þeir vilja lesa. Þá er nú gott að þeir hafi aðgang að góðu bókasafni með fjölbreyttu úrvali bóka.

Nemendur sem nú fara og velja sér bækur hafa misjafnar forsendur til þess að lesa og eru nokkrir í hverjum bekk sem ráða ekki við aldurssvarandi lesefni vegna lestrarörðugleika. Eigi þessir nemendur einnig að fá notið þess að velja bækur af eigin áhuga geta þeir nýtt sér hljóðbækur sem hvort tveggja má nýta til að hlusta meðfram lestrinum eða eingöngu njóta þess að hlusta. Ég ætla ekki að tíunda hve mikilvægur lestur er fyrir orðaforða og hve jákvæð áhrif hann hefur á allt nám. Hins vegar er mikilvægt að ítreka hversu mikilvægt Hljóðbókasafn Íslands er fyrir nemendur með lestrarörðugleika og reyndar nemendur sem einhverra hluta vegna standa höllum fæti í íslensku máli.

Hljóðbókasafnið er fjársjóðskista fyrir nemendur sem þurfa á þjónustu þess að halda. Það er aðgengilegt allan sólarhringinn því hver sá sem hefur aðgang að safninu getur sótt sér hljóðbækur í gegnum heimasíðu þess. Það er opið alla rauðu dagana á dagatalinu og einnig á meðan skólar landsins eru lokaðir yfir sumarið. Því búa þeir sem hafa aðgang að safninu við ákveðin forréttindi hvað aðgang varðar.

Hljóðbókasafnið sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið á hrós skilið fyrir starfsemina og ljóst að hún er samfélaginu ómetanleg. Fram til þessa hafa nemendur ekki þurft að greiða sérstaklega fyrir aðgang að þessu góða safni frekar en að sjálfu skólasafninu. Nú hefur hins vegar orðið sú breyting á að greiða þarf sérstaklega 2000 krónur fyrir ársaðgang. Það er ekki há upphæð í sjálfu sér og skiljanlegt að stofnunin þarf fjármagn en er þetta rétt leið til að sjá henni fyrir því?

Að mínu mati er vegið að þessum hópi nemenda sem er á öllum skólastigum. Þeir eiga líkt og aðrir nemendur að hafa aðgang að góðum bókakosti á eigin forsendum. Vonandi eru þetta bara tæknileg mistök sem verða leiðrétt. Það getur ekki verið að sjálft mennta- og menningarmálaráðuneytið taki meðvitaða ákvörðun sem þessa. En ef sú er raunin væri gagnlegt að fá skýringu á þessari ákvörðun og hvernig hún samræmist markmiðum þeim sem fram koma í nýútgefinni Hvítbók um umbætur í menntun.




Skoðun

Sjá meira


×