Enski boltinn

Bravo orðinn leikmaður Man City

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bravo er fyrirliði síleska landsliðsins.
Bravo er fyrirliði síleska landsliðsins. vísir/getty
Enska úrvalsdeildarliðið Manchester City hefur staðfest kaupin á síleska landsliðsmarkverðinum Claudio Bravo frá Barcelona.

Hinn 33 ára gamli Bravo skrifaði undir fjögurra ára samning við City.

Bravo lék í áratug á Spáni, fyrstu átta árin með Real Sociedad og síðustu tvö ár með Barcelona þar sem hann vann allt sem hægt var að vinna.

Bravo, sem er leikjahæsti leikmaður í sögu síleska landsliðsins, varð Suður-Ameríkumeistari 2015 og 2016. Hann var valinn besti markvörður mótsins í bæði skiptin.

„Ég er mjög stoltur að vera genginn í raðir Manchester City. Það er ekki auðvelt að yfirgefa félag eins og Barcelona þar sem ég átti tvö stórkostleg ár en tækifærið að starfa með Pep Guardiola var of gott til að sleppa því,“ segir Bravo á heimasíðu City. Þar kveðst Guardiola ánægður með nýja markvörðinn.

„Claudio er stórkostlegur markvörður og frábær viðbót við okkar hóp. Hann býr yfir reynslu og leiðtogahæfileikum og er á toppnum á sínum ferli. Ég hef hrifist af honum í mörg ár og er mjög ánægður að hann sé orðinn leikmaður City.“

Bravo gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir City þegar liðið mætir West Ham United á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×