Erlent

Brast í grát við að segja frá voðaverkum ISIS

Bjarki Ármannsson skrifar
Nadía Múrad, 22 ára jadísk kona, sagði sína sögu í sjónvarpsþættinum Urix í norska ríkissjónvarpinu í vikunni.
Nadía Múrad, 22 ára jadísk kona, sagði sína sögu í sjónvarpsþættinum Urix í norska ríkissjónvarpinu í vikunni.
„Ég óska þess að norska ríkisstjórnin, og ríkisstjórnir annarra landa, sjái það að verið er að drepa okkur vegna trúar okkar. Það verður að kalla þetta þjóðarmorð.“

Þetta segir Nadía Múrad, 22 ára jadísk kona, sem sagði sína sögu í sjónvarpsþættinum Urix í norska ríkissjónvarpinu í vikunni. Nadía átti erfitt með að halda aftur af tárunum er hún lýsti því hvernig liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkið rændu henni úr heimabæ sínum í norður-Írak og gerðu að kynlífsþræl sínum.

Nadía ferðast um þessar mundir um Norðurlöndin til þess að vekja athygli á þjáningum þeirra Jasída sem enn eru í haldi. Í viðtalinu við Urix, sem sjá má brot úr hér fyrir neðan, brestur hún í grát þegar hún sér mynd af konu klæddri í hvíta Jasídaflík.

„Það er út af þessari flík sem gamla konan er í sem ég hef ferðast til allra þessara landa að segja sögu mína,“ segir hún. „Þetta er klæðnaður okkar og móðir mín klæddist fötum sem þessum. Við erum drepin vegna trúar okkar og vegna þess að við klæðumst þessum fötum.“

Sjá einnig:Raunir Jasída: Kynlífsþrælkun, þjóðarmorð og misþyrming

Jasídar eru íraskur minnihlutahópur sem hefur mátt þola gífurlegt ofbeldi og stríðsglæpi af hálfu Íslamska ríkisins undanfarin ár. Nadía er einn þeirra þúsunda barna og kvenna sem neyddar hafa verið í þrælkun en einnig hefur heilu þorpunum verið eitt og þúsundir manna teknir af lífi.

Nadía var fangi hryðjuverkamannanna í þrjá mánuði og mátti þola hópnauðgun af þeirra hálfu. Hún náði að flýja í nóvember í fyrra og hefur sótt um hæli í Stuttgart í Þýskalandi. Hún sagði sögu sína fyrir öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í desember og hvatti þar samtökin til útrýma vígamönnum Íslamska ríkisins fyrir fullt og allt.

„Þeir beita nauðgunum til þess að eyðileggja líf stúlkna og kvenna,“ sagði hún í ræðu sinni þar. „ISIS notar Jasída konur eins og kjöt sem má kaupa og selja. Ég bið ykkur, eyðið ISIS.“


Tengdar fréttir

Ætla að „grafa“ ISIS

Forseti Afganistan segir hryðjuverkasamtökin vera ógn gegn stöðugleika landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×