Erlent

Brasilíumenn eru sakaðir um útflutning á úldnu kjöti

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Temer bauð sendiherrum á veitingastað til að sannreyna ágæti kjötsins.
Temer bauð sendiherrum á veitingastað til að sannreyna ágæti kjötsins.
Til þess að sýna umheiminum að brasilískt kjöt sé ekki jafnslæmt og kom í ljós við húsleit lögregluyfirvalda síðastliðinn föstudag bauð forseti Brasilíu, Michel Temer, sendiherrum erlendra ríkja til málsverðar á einu af bestu steikhúsum höfuðborgarinnar um helgina.

Forsetinn sat við hlið sendiherra Kína, sem í fyrra keypti nautakjöt frá Brasilíu fyrir 225 milljarða íslenskra króna, og pantaði nautakjöt, lambakótelettur og pylsu. Kjötið sem Temer bauð sendiherrunum upp á reyndist hins vegar vera frá Úrúgvæ og Ástralíu og þykir það sérlega neyðarlegt í ljósi atburða síðustu daga.

Lögreglan lét til skarar skríða gegn um 200 kjötframleiðendum eftir tveggja ára rannsóknir. Þeir eru meðal annars grunaðir um að selja úldið og salmónellusmitað kjöt. Þeir eru jafnframt grunaðir um að hafa hakkað pappakassa saman við kjöthakk. Yfir 30 fyrirtæki eru sökuð um að hafa notað sýru og önnur efni til að fela ástand kjötsins. Í sumum tilfellum hafa verið notuð efni sem geta valdið krabbameini, að því er BBC hefur eftir lögreglunni.

Starfsmenn matvælastofnunarinnar í Brasilíu, sem sinna eiga eftirliti með kjötframleiðslunni, eru grunaðir um að hafa tekið við mútum og hafa 33 þeirra verið settir í gæsluvarðhald.

Forsetinn hefur bent á að í Brasilíu séu 4.837 sláturhús. Aðeins 21 þeirra hafi ekki uppfyllt tilskildar kröfur. Tilraunir hans til að benda á ágæti brasilísks kjöts hafa ekki borið árangur. Kína hefur stöðvað allan innflutning á rauðu kjöti frá Brasilíu, Evrópusambandið hefur hætt viðskiptum við kjötframleiðendurna sem liggja undir grun og Hong Kong, Japan, Mexíkó, Síle og Suður-Kórea hafa takmarkað innflutning á kjöti frá Brasilíu.

Brasilía er stærsti útflytjandi heims á nauta-, grísa- og fuglakjöti.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×