Erlent

Brak fundið úr alsírsku vélinni

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Alls voru 116 um borð í vélinni sem var á leið frá Búrkína Fasó til Algeirsborgar.
Alls voru 116 um borð í vélinni sem var á leið frá Búrkína Fasó til Algeirsborgar. nordicPhotos/afp
Forseti Malí, Ibrahim Boubacar Keita, tilkynnti í gærkvöld að brak úr flugvél alsírska flugfélagsins Air Algerie hefði fundist í Sahara-eyðimörkinni í norðurhluta landsins. Þetta kom fram á erlendum fréttavefjum.

Alls voru 110 farþegar um borð, þar af um fimmtíu Frakkar, og sex manna áhöfn sem var starfsfólk spænska flugfélagsins Swiftair. Að minnsta kosti tíu börn voru í vélinni.

Vélin var á leið til Algeirsborgar, höfuðborgar Alsírs. Hún tók á loft í Ouagadougou í Búrkína Fasó en tæpri klukkustund síðar barst kall frá flugmanni til flugstjórnar í Níger þess efnis að breytt yrði um stefnu vegna mikils sandbyls fram undan.

Mikil leit fór fram í Malí og sendu Frakkar meðal annars herflugvélar í slíkan leiðangur. François Hollande Frakklandsforseti sló öllum fundarhöldum sem hann átti fyrir höndum erlendis á frest þegar fréttist að vélin hefði horfið af ratsjá. Þegar Fréttablaðið fór í prentun höfðu ekki borist neinar nánari fréttir af því hvað hefði farið úrskeiðis þegar vélin hrapaði. Stríðsástand ríkir á svæðinu í norðurhluta Malí og skemmst er að minnast hörmunganna í síðustu viku þegar flugvél frá Malaysia Airlines var skotin niður í Úkraínu með nær þrjú hundruð manns innanborðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×