Erlent

Brak flugvélarinnar fundið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér má sjá nýlega mynd af vélinni. Hún er í eigu spænska flugfélagsins Swift Air en í leigu hjá Air Algerie.
Hér má sjá nýlega mynd af vélinni. Hún er í eigu spænska flugfélagsins Swift Air en í leigu hjá Air Algerie. VÍSIR/AP
Brak flugvélar Air Algerie, sem fórst fyrr í dag með 116 manns innanborðs, er fundið ef marka má forseta Malí, Boubacar Keita, en hann sagði við fréttamiðla þar í landi að vélin hafi fundist milli tveggja smábæja í norðausturhluta landsins.

„Ég hef rétt í þessu fengið upplýsingar um að flak flugvélarinnar hafi fundist milli Aguelhok og Kidal,“ sagði Keita á fundi í Bamako í Malí. Hann veitti ekki nánari upplýsingar að svo stöddu.

Svæðið er sérstaklega dreifbýlt, enda í miðri Sahara-eyðimörkinni. Ekki er enn vitað hvað olli því að flug­vél­in hrapaði.

Að sögn Koko Essien hershöfðingja á veðrið á svæðinu að hafa verið slæmt. Vopnaðar sveitir uppreisnarmanna finnast einnig á svæðinu, en Essien segir líklegra að óveðrið hafi orsakað slysið.

Samkvæmt ríkisfréttastofu Alsírs var AH 5017 á leið til Algeirsborgar. Á vef Reuters segir að 110 farþegar og sex áhafnarmeðlimir hafi verið um borð í vélinni, sem er af gerðinni DC-9. Flugvélagið flýgur milli Ouagadougou og Algeirsborgar fjórum sinnum í viku.

Flugfélagið hefur staðfest að fimmtíu franskir ríkisborgarar hafi verið um borð í vélinni. Þá voru 24 frá Búrkína Fasó, fjórir Líbanir, fjórir Alsíringar, tveir Lúxemborgarar, einn Belgi, einn Svisslendingur, einn Nígeríumaður, einn Kamerúni, einn Úkraínumaður og einn Rúmeni. Áhafnarmeðlimir vélarinnar voru spænskir.

Líbönsk yfirvöld fullyrða hins vegar að tíu Líbanir hið minnsta hafi verið um borð í vélinni.


Tengdar fréttir

Misstu samband við vél Air Algerie

Air Algerie hefur misst samband við vél sína um fimmtíu mínútum eftir að vélin tók á loft í Ouagadougou, höfuðborg Búrkína Fasó. 116 voru um borð í vélinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×