Innlent

Bragi Ásgeirsson látinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Bragi Ásgeirsson.
Bragi Ásgeirsson.
Bragi Ásgeirsson, myndlistarmaður, kennari, listrýnir og greinahöfundur, lést á föstudaginn. Hann var 84 ára gamall. 

Bragi fæddist í Reykjavík þann 28. maí árið 1931. Hann var við nám í Handiðaskólann í Reykjavík 1947-50 og við Listaháskólann í Kaupmannahöfn 50-52. Þá lærði hann grafík við Listiðnaðarskólann í Ósló 52-53. Hann var einnig við nám í módelteikningu við Accademia di Belle Arti við via Margutta í Róm.

Hann fór svo aftur í Listaháskólann í Kaupmannahöfn 55-56 þar sem hann lærði grafík.

Á árunum 1956-58 kenndi hann grafík við Myndlista og handiðnaskóla Íslands. Árið 1960 hóf hann aftur kennslu eftir eins árs nám við Listaháskólann í München. Árið 1966 gerðist Bragi listgagnrýnandi Morgunblaðsins.

Bragi hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir list sína. Hann var fulltrúi í alþjóðlegri nefnd Tvíæringsins í Rostock á árunum 1967-81. Þar hlaut hann Pablo Neruda-friðarpeninginn og medalíu Eystrasaltsvikunnar. Þá hlaut hann viðurkenningu fyrir grafík á sýningu í Kraká árið 1971, Edvard Munch styrkinn árið 1977, starfsstyrk íslenska ríkisins 1978-79.

Hann var borgarlistarmaður Reykjavíkur 1981-82 og seinna árið hlaut hann einnig Bröste-bjartsýnisverðlaunin. Hann var kjörinn heiðursfélagi félagsins í íslenskri grafík árið 1983. Þá var Bragi sæmdur riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu listar og menningar árið 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×