Innlent

Brá rosalega þegar apinn stökk á mig

Orkubolti „Ég heiti Stuðfríður Krúttmundína Hekla Gauksdóttir en er samt alltaf kölluð Hekla,“ segir Hekla.
Fréttablaðið/Vilhelm
Orkubolti „Ég heiti Stuðfríður Krúttmundína Hekla Gauksdóttir en er samt alltaf kölluð Hekla,“ segir Hekla. Fréttablaðið/Vilhelm
Hvað heitir þú fullu nafni og hvað ertu gömul? Ég heiti Stuðfríður Krúttmundína Hekla Gauksdóttir en er samt alltaf kölluð Hekla. Ég á afmæli eftir nokkra daga og þá verð ég 8 ára. Í hvaða skóla ertu og hver er eftirlætisnámsgreinin þín? Ég er í Háteigsskóla í öðrum bekk og finnst skemmtilegast að læra stærðfræði og lestur. Varst þú ekki í auglýsingu fyrir Icelandair? „Jú, mamma mín var að vinna í auglýsingunni og spurði mig hvort ég vildi vera með í myndatöku. Það var skemmtilegt að taka þátt í auglýsingu og það sem var dálítið skrítið var að ég þurfti að eiga þykjustuforeldra í myndatökunni.“ Hefur þú farið í flugvél? „Já ég hef farið til Svíþjóðar og Englands nokkrum sinnum.“ Hvenær fórstu síðast og hvað upplifðir þú þá? „Ég fór síðast til Englands um áramótin með mömmu minni að heimsækja vinkonu hennar. Það var skemmtileg ferð og gistum við í fallegu húsi í sveitinni sem líktist helst kastala. Við fórum líka í lest til London og í bíó að sjá Paddington.“ Hver eru helstu áhugamálin þín? „Myndlist, fótbolti, skautar, dans, æfa á fiðlu og að fara í ferðalög.“ Hefur þú lent í einhverjum ævintýrum? „Síðasta sumar fór ég með pabba mínum til Svíþjóðar í alvöru dýragarð. Þá var api sem stökk á hausinn á mér og mér brá rosalega mikið. Svo fórum við í alvöru draugahús í tívolíinu en þegar ég sá fyrsta skrímslið þorði ég ekki lengra og fór út aftur.“ Hvernig finnst þér skemmtilegast að leika þér? „Mér finnst gaman að leika mér í leik sem heitir 10, 20 við krakkana í skólanum mínum og svo á ég líka bestu vinkonur sem heita Embla og Bríet og þegar ég hitti þær þá finnst okkur gaman að leika í mömmó, monster high, í iPad, lita og teikna og margt margt fleira.“ Hvað langar þig helst að verða þegar þú verður stór? „Myndlistarkona, vísindamaður, læknir, leikkona, söngkona og bakari.“


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×