Enski boltinn

Bournemouth komið með annan fótinn í úrvalsdeildina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Strákarnir í Bournemouth fagna í kvöld.
Strákarnir í Bournemouth fagna í kvöld. vísir/getty
Smáliðið Bournemouth með leikvang sem tekur 12.000 manns verður í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð, en það er nánast ekkert sem kemur í veg fyrir það.

Bournemouth vann Eið Smára Guðjohnsen og félaga í Bolton, 3-0, í næstsíðustu umferð ensku B-deildarinnar í kvöld. Mörkin skoruðu Marc Pugh, Matt Ritcihe og Callum Wilson.

Eiður Smári kom inn á sem varamaður á 63. mínútu, en Bolton spilaði manni færri frá 70. mínútu þegar Dorian Dervite fékk að líta rauða spjaldið.

Bournemouth er með 87 stig í öðru sæti B-deildarinnar, þremur stigum á undan Middlesbrough þegar ein umferð er eftir.

Boro verður að treysta á að Bournemouth tapi í lokaumferðinni og vinna upp 20 mörk sem Eddie Howe og strákarnir hans hafa í forskot á Middlesbrough.

Sterkur sóknarleikur heldur betur að skila sér hjá Bournemouth-liðinu, en það er búið að skora flest mörk í deildinni eða 95 stykki.

Upprisa Bournemouth hefur verið ævintýraleg, en liðið var í D-deildinni fyrir aðeins sex árum og hélt sæti sínu þar þrátt fyrir að tekin væru af því 17 stig.

Bournemouth komst upp í C-deildina 2010 og eyddi þar þremur tímabilum áður en liðið komst upp í B-deildina 2013. Sem nýliði í fyrra náði liðið 10. sæti og er nú á leið í úrvalsdeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×