Handbolti

Botnliðið fær til sín landsliðsmarkvörð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dröfn Haraldsdóttir.
Dröfn Haraldsdóttir. Vísir/Stefán
Dröfn Haraldsdóttir var ekki lengi án félags en þessi 23 ára markvörður hefur skrifað undir samning við Olís-deildar lið ÍR og mun klára tímabilið með Breiðholtsliðinu.

Dröfn hætti hjá ÍBV á dögunum en Eyjamenn voru þá nýbúnir að fá til sín Ólöfu Kolbrúnu Ragnarsdóttur. Þær vörðu saman mark HK á sínum tíma en ekki varð að því að þær endurtækjum það samstarf.

„Meistaraflokkur kvenna hjá ÍR fékk í dag gríðarlegan liðstyrk, félagið gerði samning við fyrrum landsliðsmarkamanninn Dröfn Haraldsdóttur. En hún spilaði á EM 2012 með landsliði Íslands," segir í fréttatilkynningu frá ÍR-ingum.

„ÍR ætlar sér að vera stærra lið í kvennahandboltanum á næstum árum og er Dröfn einn liðurinn í því og ættu því markmannsmál ÍR að vera í góðum málum með Dröfn og Karen Ösp sem vonandi mynda flott markvarðarteymi saman," segir ennfremur í fréttatilkynningu ÍR-inga.

ÍR-liðið hefur tapað þrettán fyrstu leikjum tímabilsins og það verður fróðlegt að sjá hvort Dröfn geti hjálpað liðinu að ná í sín fyrstu stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×