Fótbolti

Börsungar náðu einungis jafntefli gegn Sociedad

Lionel Messi fagnar sínu níunda marki í spænsku deildinni á þessu tímabili.
Lionel Messi fagnar sínu níunda marki í spænsku deildinni á þessu tímabili. vísir/getty
Barcelona tapaði dýrmætum stigum í toppbaráttu spænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu þegar þeir gerðu jafntefli við Real Sociedad á útivelli í kvöld.

Fyrir leikinn voru Börsungar sjö stigum á eftir Real Madrid sem sátu í toppsæti deildarinnar. Sociedad var í 5.sætinu og því alls ekki um auðveldan leik að ræða fyrir Barcelona.

Það kom líka á daginn. Heimamenn voru síst lakari aðilinn og voru til að mynda meira með boltann en Barcelona í leiknum auk þess að eiga fleiri skot á markið. Eitthvað sem gerist ekki oft þegar Barcelona á í hlut.

Heimamenn komust svo yfir í upphafi síðari hálfleiks þegar Willian Jose skoraði með skalla. Lionel Messi var hins vegar ekki lengi að jafna metin fyrir gestina með sínu níunda marki í deildinni.

Bæði lið reyndu hvað þau gátu til þess að skora. Sociedad komst nálægt því þegar þeir áttu þrumuskot í þverslána og niður á marklínuna en mörkin urðu hins vegar ekki fleiri og niðurstaðan 1-1 jafntefli.

Barcelona er því heilum sex stigum á eftir Real Madrid á toppi deildarinnar en liðin mætast einmitt á laugardaginn í El Clasico leiknum sem margir bíða eftir. Þar þarf Barcelona einfaldlega að vinna ætli þeir sér ekki að missa Real heil níu stig fram úr sér.

Atletico Madrid vann öruggan 3-0 sigur á útivelli gegn Osasuna í dag. Diego Godin og Kevin Gameiro komu Atletico yfir í fyrri hálfleik og Yannick Carrasco bætti þriðja markinu við á lokamínútunni. Atletico fór upp í 4.sætið með sigrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×