Lífið

Börnin voru byrjuð að svara sögumanninum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hugrún Hanna Stefánsdóttir og Bryndís Guðjónsdóttir í hlutverkum Paminu og næturdrottningarinnar.
Hugrún Hanna Stefánsdóttir og Bryndís Guðjónsdóttir í hlutverkum Paminu og næturdrottningarinnar.
„Þetta verður mjög skemmtileg sýning, það er svo mikil gleði í henni,“ segir Anna Júlíana Sveinsdóttir söngkennari. Þar er hún að tala um Töfraflautuna eftir Mozart sem verður frumsýnd í Salnum síðdegis í dag, á vegum Tónlistarskóla Kópavogs, í íslenskri þýðingu. Flytjendur eru nemendur í skólanum.

Töfraflautan snýst um egypska prinsinn Tamino sem er villtur í ókunnu landi og verður ástfanginn af Paminu, dóttur næturdrottningarinnar. Papageno þarf að leggja ýmislegt á sig og hreppir loks sína eigin Papagenu.



Anna Júlíana segir um tilvalda fjölskylduskemmtun að ræða. „Þetta er ævintýri,“ segir hún. „Jón Pétur Friðriksson er í hlutverki hins gamansama Papagenos og milli söngatriða rekur hann söguþráðinn til að auðvelda börnum að átta sig á efninu. Hann Jón Pétur er svo skemmtilegur og leikrænn að á generalprufunni á sumardaginn fyrsta voru börnin farin að svara honum, þau lifðu sig svo inn í það sem hann var að segja.“





Skotin?Tinna Jóhanna Magnusson og Jón Pétur Friðriksson leika Papagenu og Papageno.
Næturdrottningin er í höndum Bryndísar Guðjónsdóttur og er æðisleg líka, að sögn Önnu Júlíönu. Bryndís var að ljúka námi við skólann hér og stefnir á nám erlendis í framhaldinu. Það er gott fyrir hana að hafa þetta hlutverk í farteskinu þangað,“ segir hún. 

Rík hefð er fyrir því að óperur séu settar á svið í Kópavogi á vegum tónlistarskóla bæjarins enda nýtur hann þess að hafa aðgang að Salnum.

„Ég er búin að setja upp 25 óperur með nemendunum gegnum árin, sumar þeirra hafa aldrei verið settar upp í annan tíma á Íslandi en við settum upp Töfraflautuna líka fyrir tíu árum,“ segir Anna Júlíana. 

Frumsýningin er í dag klukkan 17 í Salnum og önnur sýning á morgun, sunnudag, klukkan 20. 

Aðgangur er ókeypis fyrir alla. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×