Erlent

Börnin skelkuð en heil á húfi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Margrét er hér með dóttur hjónanna sem sjá um börnin á heimilinu í fanginu sem þau nefndu eftir henni.
Margrét er hér með dóttur hjónanna sem sjá um börnin á heimilinu í fanginu sem þau nefndu eftir henni. Mynd/Margrét Ingadóttir
Margrét Ingadóttir, sem rekur heimili fyrir munaðarlaus börn í Katmandú í Nepal, segir að það hafi verið afar erfitt að ná ekki sambandi við heimilið eftir að gríðaröflugur jarðskjálfti reið yfir landið í dag.

Rafmagnslaust og símabandslaust varð víða í Nepal í kjölfar skjálftans og segir Margrét að það hafi líklega liðið um fjórir tímar frá því skjálftinn reið yfir og þar til hún náði í Baal, sem er pabbinn á heimilinu.

„Börnin voru öll heima því það er laugardagur og enginn skóli. Við erum með 12 börn á okkar framfæri, svo eiga hjónin sem sjá um þau tvö börn og svo var systir konunnar einnig í húsinu. Þau hlupu öll út þegar jarðskjálftinn reið yfir en við erum heppin með að húsið okkar er nokkuð gott og það þoldi skjálftann,“ segir Margrét í samtali við Vísi.

Sjá einnig: Með ellefu börn á framfæri: Kaupi frekar grjón en merkjavöru

Hún segir þau ekki þora að vera í húsinu en eru búin að slá upp tjaldi á grasbletti skammt frá og dvelja þar núna.

„Börnin eru skiljanlega skelkuð og þora ekki að vera í húsinu. Það hafa komið margir snarpir eftirskjálftar og fólk óttast að það komi annar stór skjálfti.“

Frá útilegu sem börnin á heimilinu fóru í seinasta haust.Mynd/Margrét Ingadóttir
Fer til Nepal í næstu viku

Margrét segir að börnin og fjölskyldan sem sér um þau séu með nægar birgðir af vatni og mat og það sé að vissu leyti heppilegt að heimilið sé í úthverfi borgarinnar.

„Þetta er nokkuð dreifbýlt svæði og það eru því ekki mörg hús þarna í kring. Ég er þó ekki viss um hvernig byggingum í næsta nágrenni hefur reitt af. Ég sá til dæmis myndir úr matvörubúð sem er í svona fjögurra kílómetra fjarlægð frá heimilinu og þar var allt í rúst.“

Margrét býr og starfar í Sádi Arabíu en hún hyggst fljúga út til Nepal í fyrri hluta næstu viku. 

„Það á í raun eftir að koma í ljós hvort að það sé allt í standi með húsið, kannski hafa orðið einhverjar skemmdir, svo það þarf að kanna það. Svo langar mig auðvitað bara að fara og vera með börnunum og fjölskyldunni.“

Styrktarreikningur: 

Þeir sem vilja vita meira um heimilið sem Margrét og félagar reka geta fundið upplýsingar á Facebook-síðu þeirra. Hægt er að styrkja heimilið með fjárframlögum. Reikningsnúmerið er: 526-26-6313 og kennitala: 631013-0310.


Tengdar fréttir

Tugir þúsunda á vergangi í Nepal

Yfirvöld í Nepal hafa staðfest að 1500 manns hafi farist í skjálftanum en óttast er að tala látinna eigi enn eftir að hækka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×