Innlent

Börnin fá ekki kjúkling og minna úrval grænmetis

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla, ásamt Trausta Magnússyni, matreiðslumeistara skólans, í eldhúsi Hagaskóla.
Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla, ásamt Trausta Magnússyni, matreiðslumeistara skólans, í eldhúsi Hagaskóla. vísir/gva
Heilbrigðiseftirlitið hefur gert kröfu um að matvælaframleiðsla í mötuneyti Hagaskóla verði takmörkuð vegna pláss- og aðstöðuleysis. Þetta veldur því að draga verður úr fjölbreytni á matseðli nemenda, taka út ákveðna rétti og takmarka grænmeti og ávexti.

Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla, segir að á aðeins nokkrum árum hafi nemendum sem eru í mataráskrift fjölgað úr tvö hundruð í rúm fimm hundruð. „Eldhúsið er löngu sprungið og við sáum þetta alveg fyrir. Ég hef látið skóla- og frístundasvið vita af þessu reglulega og þrátt fyrir viðvörun frá Heilbrigðiseftirlitinu í vor hefur ekkert verið aðhafst.“

Til að tryggja öryggi matvæla má til dæmis ekki elda kjúkling lengur í eldhúsinu og hverfur hann því af matseðlinum. Einnig þarf að taka út vinsæla rétti eins og hakk og spagettí, einfaldlega því það þarf að matreiða svo mikið magn og plássið er of lítið. Síðustu ár hefur skólinn boðið upp á veglegan grænmetis- og ávaxtabar sem nú þarf að takmarka.

„Við höfum enn engin loforð fengið um að aðstaðan verði bætt,“ segir Ingibjörg en segist vona að eldhús Hagaskóla verði ofarlega á næstu fjárhagsáætlun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×