Innlent

Börn oft vanrækt á heimili þeirra sem eiga við vímuefnavanda að stríða

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Kristín Steingrímsdóttir
Kristín Steingrímsdóttir
Þriðjungur barnaverndarmála í Reykjavík kemur upp á heimilum þar sem er áfengis- og fíkniefnavandi. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem kynnt var í velferðarráðuneytinu í gær, en hún byggir á tilkynningum til barnaverndarnefnda yfir sex mánaða tímabil.

Ástæður tilkynninga þar sem neysla var staðfest voru langoftast vanræksla, tilfinningalegt ofbeldi og heimilisofbeldi. Neysla á heimili var ekki skráð í neinni tilkynningu vegna kynferðisofbeldis og afar sjaldan skráð í tilkynningum um líkamlegt ofbeldi. „Þetta gefur ákveðið forspárgildi og er nokkurn veginn í takt við þær erlendu rannsóknir sem við skoðuðum,“ segir Kristín Steingrímsdóttir félagsráðgjafi, sem vann að rannsókninni ásamt Hildigunni Ólafsdóttur afbrotafræðingi.

Aldrei áður hafa gögn barnaverndarnefndar verið greind með þessum hætti hér á landi. „Þetta gefur okkur mikilvæga yfirsýn yfir hvernig barnaverndin vinnur úr vandanum, sem vissulega er margþættur,“ segir Kristín.

Af opinberum aðilum er það lögregla sem tilkynnir vanræksluna oftast til barnaverndar eða í 37 prósentum tilfella. Athygli vekur að leikskólar og skólar tilkynna slíkt mun sjaldnar, eða í átta og tveimur prósentum tilfella. Engin tilkynning var skráð frá SÁÁ sem rekur meðferðarstofnanir og sinnir fjölskyldum í neysluvanda. Úr nærumhverfi barnanna eru það svo nágrannar og ættingjar sem tilkynna vanrækslu oftast eða í 17 prósentum tilfella hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×