Erlent

Börn Margrétar sváfu undir berum himni

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Hér er Margrét með nokkrum barnanna á heimilinu. Yngsta barnið er tveggja ára en það elsta er sautján ára.
Hér er Margrét með nokkrum barnanna á heimilinu. Yngsta barnið er tveggja ára en það elsta er sautján ára.
Margrét Ingadóttir sem rekur heimili fyrir tólf munaðarlaus börn í Katmandú í Nepal hefur miklar áhyggjur af líðan og öryggi þeirra. Í nótt sváfu þau flest undir berum himni skammt frá heimilinu og veðurspáin var afleit, þrumuveður og rigning. Yngsta barnið sem hún hefur á framfæri sínu er tveggja ára og það elsta sautján ára. Hún segir börnin ekki þora að vera í húsinu.

„Allra minnstu börnin eru í tjaldi og í svefnpoka en hin sofa undir berum himni en með sængurnar sínar. Það er spáð þrumuveðri. Það er svo erfitt að hugsa til þess að þau þurfi að sofa úti. Það er kalt og erfitt að vera úti, en fólk vill ekki vera inni. það er enn hætta á stórum skjálfta. Það hafa orðið skemmdir á húsinu og það er ekki öruggt að dvelja í því.“

Rafmagnslaust og símasambandslaust varð víða í Nepal í kjölfar skjálftans og segir Margrét að nokkrar klukkustundir hafi liðið frá því skjálftinn reið yfir og þar til hún náði í Baal, sem er pabbinn á heimilinu.

„Börnin voru öll heima því það var laugardagur og enginn skóli. Þau hlupu öll út þegar jarðskjálftinn reið yfir. Ég var fegin að heyra frá þeim og heyrði í þeim aftur síðdegis, þá höfðu þau fengið rafmagn á heimilið og hafði tekist að fylla á vatnsflöskur og hlaða símana sína. Þau eru með nóg vatn og mat en það væri óskandi að það væru fleiri tjöld og svefnpokar,“ segir Margrét og segist reyna öll ráð til að komast til þeirra en hún er stödd í Sádi-Arabíu.

„Ég hef verið að reyna að komast til þeirra og er komin með flugmiða, en það er lokað fyrir allt farþegaflug sem stendur. Það verða send hjálpargögn frá Sádi-Arabíu, ég skoðaði hvort ég kæmist með gögnunum til Nepal en það er útilokað. Hún huggar sig við það að foreldrarnir sem hún hefur ráðið til að annast börnin séu hæfir til starfsins.

„Ég veit að þetta er erfitt, en ég veit líka að fólkið þarna um slóðir er sterkt eftir röð áfalla, þau hafa lifað af borgarastyrjöld. Börnin á heimilinu hafa líka gengið í gegnum ýmislegt. Ég vildi að ég kæmist núna strax til að vera með börnunum og fjölskyldunni en eins og er þá er það ekki mögulegt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×