Erlent

Börn í felum neðanjarðar

ingvar haraldsson skrifar
Anna hefur búið ásamt bróður sínum, Sasaha, móður sinni og ömmu í kjallara sjúkrahúss í Donetsk síðastliðna fimm mánuði vegna stríðsátakanna sem geisað hafa í borginni. Fjölskyldan deilir svefnstað með tuttugu öðrum. Líkt og Anna þjást mörg börn af mikilli streitu og kvíða vegna ofbeldisins sem þau hafa orðið vitni að.
Anna hefur búið ásamt bróður sínum, Sasaha, móður sinni og ömmu í kjallara sjúkrahúss í Donetsk síðastliðna fimm mánuði vegna stríðsátakanna sem geisað hafa í borginni. Fjölskyldan deilir svefnstað með tuttugu öðrum. Líkt og Anna þjást mörg börn af mikilli streitu og kvíða vegna ofbeldisins sem þau hafa orðið vitni að. Mynd/UNICEF
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hefur miklar áhyggjur af stöðu barna í Úkraínu. Yfir 1.100 börn hafast nú við í yfirgefnum neðanjarðarbyrgjum og kjöllurum í borginni Donetsk. Vistar- verurnar sem börnin hafa sótt í eru án kyndingar, vatns og hreinlætisaðstöðu og þar eru matvæli af afar skornum skammti.

Fulltrúar UNICEF segja ofbeldi í Úkraínu hafa aukist í landinu frá því í janúar þrátt fyrir að vopnahléssamningur hafi verið í gildi frá því í september.

Yfir 136 þúsund börn hafa þurft að flýja heimili sín frá því stríðsátökin hófust. Þá þurfa yfir 600 þúsund börn á neyðarhjálp að halda.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir 5.086 manns hafa látið lífið í átökunum í Úkraínu, þar af að minnsta kosti 55 börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×