Lífið

Börn geta meira en við höldum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Dilla kveðst benda börnum á að þegar þau hafi verið að læra að ganga hafi þau dottið oft en nú geti þau hlaupið.
Dilla kveðst benda börnum á að þegar þau hafi verið að læra að ganga hafi þau dottið oft en nú geti þau hlaupið. Vísir/Ernir
Akureyringurinn Dýrleif Skjóldal er stödd í Reykjavík að sinna nýfæddri sonardóttur, hverrar foreldrar eru að ljúka prófum. Unga daman sefur vært þegar við Dýrleif tyllum okkur við sporöskjulagað eldhúsborð til að spjalla saman. Áður en við snúum okkur að aðalumræðuefninu, Dillusundinu, sem Dýrleif hlaut samfélagsverðlaun Fréttablaðsins fyrir, kemst ég að því að hún vill láta kalla sig Dillu og að Skjóldalsnafnið er komið frá afa hennar, Kristjáni Pálssyni. Hann fór til náms í Danmörku um 1900 og fannst eftirnafnið sitt hljóma eins og Pölse í munni Dana svo hann ákvað að kenna sig við dal á æskustöðvunum í Eyjafirði.

Ofan í þrjá tíma á dag



„Sundþjálfun barna varð eiginlega óvart mín sérgrein og það er fyrst og fremst áhugi á henni sem fleytir mér áfram,“ segir Dilla brosandi. „Ég er ofan í lauginni með krökkum hátt í þrjá tíma á dag, samfleytt, eftir vinnu á leikskólanum á Svalbarðseyri en starfið mitt þar er líka mikið áhugamál.“

Eitt af því sem Dilla segir einkenna afstöðu sína til barna er trú á getu þeirra. 

„Eðlislega held ég alltaf að krakkar geti meira en við höldum og það er svolítið ríkt í mér að leyfa þeim að komast að því sjálfum. Hvernig? Oft sést það á krökkum ef þá langar að prófa eitthvað og þá þarf bara að hvetja þá aðeins. Ég vel að vera við hliðina á þeim, í stað þess að snúa þeim strax við, og rétti þeim höndina ef á þarf að halda.“

 Dilla segir flestum börnum líða vel í vatni,  sum þeirra skorti þó kjark til að fara í kaf og þá þurfi hún að vera svolítið frek. „Stundum spyrja foreldrar mig hvort krakkinn þeirra megi ekki sleppa því að fara kollhnís, hann fái svo mikið vatn upp í nefið og ég spyr á móti: „Nú, kann hann ekki að snýta sér?“ Það er eina ráðið, að blása gegnum nefið, því loftið ýtir vatninu burtu. Okkur hættir til að vera dálítið meðvirk. Ég bendi börnum oft á að þegar þau hafi verið að læra að ganga hafi þau dottið margoft en alltaf staðið upp aftur og nú geti þau hlaupið. Eins sé þetta í sundinu, manni mistakist aftur og aftur þangað til einn daginn að allt gengur vel.“ Spurð hvort hún hafi þurft að beita hjálp í viðlögum á börn í lauginni svarar Dilla:

„Ég hef alveg lent í að krökkum hefur svelgst á og þau hafa orðið undir í leik þannig að þau hafa orðið hrædd. Það er erfitt. En aðalatriðið er, eins og þegar fólk dettur af hestbaki, að hvetja þau til að reyna aftur.“

Búa að sundi alla ævi



En hvaðan kemur Dillu áhuginn á sundinu?

„Sem krakki bjó ég nálægt sundlaug Akureyrar og var þar mjög mikið. Ég æfði hjá Sundfélaginu Óðni þegar ég var tíu til tólf ára, þá voru þar bara tveir hópar og ég var sett í þann eldri, vegna getu. Tveimur árum seinna voru bara átján og nítján ára strákar eftir í þeim hópi og því hætti ég. Það var enginn að spá í það, enda ekki nærri eins mikil áhersla lögð á íþróttir þá eins og núna.

Eftir að ég varð fullorðin þvældist ég svo í að þjálfa litlu krakkana, fyrst af því að þjálfarinn þeirra fékk botnlangakast og svo vegna manneklu. Strákarnir mínir æfðu sund og ég var í stjórn sundfélagsins, eins og margir foreldrar. Ég vissi að það voru engir peningar til og þetta var verk sem þurfti að vinna svo ég var kauplaus fyrstu árin. En þegar ég útskrifaðist sem leikskólakennari 2008 fór ég að fá bætt upp það sem ég missti úr vinnu í leikskólanum sundsins vegna. Svo ég vinn sem 70 prósent leikskólakennari og það sem vantar upp á 100 prósent laun fæ ég fyrir sundið. Það þættu ekki alls staðar mikil þjálfaralaun, að minnsta kosti ekki í knattspyrnunni. Ég er með börn, frá fjögurra til níu ára, hef verið með upp undir átta hópa og í einum þeirra er fólk með skilgreinda fötlun.“

Ekki er Dilla í vafa um góð áhrif sunds á heilsu og hæfni. „Sund er sérstakt að því leyti að það getur fólk stundað sér til heilsubótar svo lengi sem það lifir, jafnvel þó það lendi í slysi, lamist eða fatlist. Börn sem æfa sund snemma á lífsleiðinni búa að því alla ævi og ef þau fara í aðrar íþróttir eru þau undantekningarlítið með þeim bestu þar, því samhæfing hugar og líkama er svo mikil.“

Hún Dilla er ekki bara áhugasöm um sund barna heldur líka útiveru. Auk þess að vera daglega í venjubundinni útivist eru leikskólabörnin á Svalbarðseyri í útiskóla hjá henni einu sinni í viku í tvo til þrjá tíma, alveg sama hvernig veðrið er. „Við förum um eyrina alla og mjög oft niður í fjöru. Ég reyni að fá börnin til að átta sig á hvað þau eru heppin að geta leikið sér í fjöru því megnið af börnum heimsins fær aldrei að sjá sjó á ævi sinni. Ef mjög mikill vindur er förum við í skógarreit fyrir ofan eyrina en börn í dag eiga svo fínan fatnað að þau gætu sofið uppi á Grænlandsjökli í 40 stiga frosti án þess að verða meint af.  Þegar ég var lítil gengu stelpur í stuttum sokkum og pilsi á sumrin og strákar í stuttbuxum.  Nú má ekki sjást í bera leggi, börn eru alltaf kappklædd. Það er bara eins og Ísland hafi rekið í átt að norðurpólnum! … Auðvitað er ég að alhæfa, það er alveg minn stíll!“

Synirnir eins og geirfuglar



Dilla er gift kona og á þrjá syni. Hún eignaðist drengina á þremur og hálfu ári og  fannst það gott fyrirkomulag.

„Það er það langgáfulegasta sem ég hef gert,“ segir hún hlæjandi.

„Þetta var þannig þá að af því að ég var gift höfðu mín börn ekki forgang í leikskóla, strákarnir byrjuðu því ekki þar fyrr en fjögurra til fimm ára og fengu bara að vera í fjóra tíma eftir hádegi. Því var alveg eins gott að taka tímabil í að eiga þá og sinna þeim og snúa sér svo að öðru. Ég var hvort sem er að koma þeim í gegnum veikindatímabil fyrstu áranna og gefa þeim að borða og þá skipti engu máli hvort þeir voru einn eða þrír – já eða tíu – því synir mínir fengu að koma inn með alla sína vini. Svo eiga þessir bræður hver annan að allt lífið, því þeir tengdust svo sterkt sem börn. En þeir eru náttúrlega eins og geirfuglar, greyin, eiga engin hálfsystkini og bara eitt par af foreldrum sem eru enn saman og meira að segja alltaf í sama húsinu – svona fólk er varla til lengur! Nú á Dilla orðið þrjú barnabörn og reynir að forgangsraða tíma sínum til þeirra eftir því sem hún getur. „Það er þessi nýfædda stúlka hér fyrir sunnan og svo tveir drengir fyrir norðan,“ segir hún brosandi. „Strákarnir eru auðvitað byrjaðir að læra sund hjá ömmu sinni þegar lausar stundir eru um helgar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×