Innlent

Börn fanga líði ekki fyrir gjörðir foreldra sinna

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Verkefnastjóri Barnaheilla- Save the Children á Íslandi, segir mikilvægt að börn fanga verði ekki fyrir fordómum eða líði fyrir hverjir foreldrar þeirra eru. Slíkt geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Fullorðnir verði að bera ábyrgð á hvernig þeir tala við börnin sín um önnur börn.

Sara Lind Annþórsdóttir steig nýverið fram og greindi frá aðkasti og fordómum sem hún hefur orðið fyrir frá unga aldri fyrir að vera dóttir þekkts glæpamanns hér á landi. Varð hún meðal annars fyrir grófu einelti í skóla og hefur ítrekað verið hvött til að skipta um nafn.

Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri Barnaheilla, segir frásögn Söru ekki einsdæmi. Fullorðnir þurfi að hafa hugfast að börn beri ekki ábyrgð á gjörðum foreldra sinna.

„Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem við höfum nú lögfest, má ekki mismuna börnum vegna stöðu þeirra eða foreldra þeirra. Börn bera alls ekki ábyrgð á hverjir eru foreldrar þeirra eða hvað foreldrar þeirra hafa gert,“ segir hún.

Þá segir Margrét að fullorðnir verði að líta í eigin barn og skoða hvernig þeir tala við börn sín um önnur börn og foreldra þeirra. 

„Auðvitað getur þetta verið byrjunin á einelti sem getur síðan verið langvarandi og haft mjög svo slæm áhrif á börnin. Við þurfum að vera hugrökk til að benda á ef við heyrum að aðrir eru með neikvæða orðræðu um börn eða aðstæður þeirra. Við verðum að þora að grípa inn í og benda á að barnið ber ekki ábyrgð,“ segir Margrét Júlía Rafnsdóttir. 






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×