Innlent

Börn fá fyrst pláss í leikskóla 30 mánaða

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Löng bið eftir plássi. Guðrún Björg Gunnarsdóttir ásamt Emil, Stellu og Ingunni Lind Pétursbörnum. Hún segir fjölskylduna vera að velta því fyrir sér að flytja burt úr Hafnarfirði.
Löng bið eftir plássi. Guðrún Björg Gunnarsdóttir ásamt Emil, Stellu og Ingunni Lind Pétursbörnum. Hún segir fjölskylduna vera að velta því fyrir sér að flytja burt úr Hafnarfirði. fréttablaðið/vilhelm
Foreldrar um 100 barna í Hafnarfirði, sem fædd eru í byrjun árs 2014, geta ekki vænst þess að fá leikskólapláss fyrir þau fyrr en að hausti árið 2016, samkvæmt svari Steinunnar Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Hafnarfjarðarbæjar. Guðrún Björg Gunnarsdóttir er einn þeirra foreldra sem eru ósáttir við að fá ekki leikskólapláss fyrr en börn þeirra eru orðin tveggja og hálfs árs eða eldri. Yngsta barn Guðrúnar varð eins árs í febrúar síðastliðnum.

„Við erum hæstánægð með dagmóðurina sem hefur hugsað um öll börnin okkar af einstakri alúð og umhyggju. Það sem veldur okkur hugarangri er að barnið komist ekki inn á leikskóla fyrr en 30 mánaða og fái ekki þá aðstöðu og liðveislu fyrir mikilvæg þroskaskref sem eru til staðar hjá leikskólum en ekki hjá dagforeldri,“ segir Guðrún.

Hún bætir því við að mikill munur sé á mánaðargjaldi dagforeldris og leikskóla.

„Að sjálfsögðu spilar það inn í hugarangur okkar hjóna. Með tilkomu þriðja barnsins okkar er komið að því að huga að stækkun húsnæðis. Maðurinn minn hefur alla sína ævi búið í Hafnarfirði og ég hef verið íbúi hér í ellefu ár. Við viljum gjarnan búa í hverfinu okkar vegna eldri barnanna og tengsla þeirra við vini sína en nú erum við í fyrsta sinn að skoða aðstæður í sveitarfélögum í kringum okkur og er þá staða í leikskólamálum efst á baugi.“

Upplýsingafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar segir niðurgreiðslu vegna barna hjá dagforeldrum hækka í þeim mánuði sem barnið verður tveggja ára. „Það er til þess að foreldri greiði sem næst leikskólagjaldi frá þeim tíma. Niðurgreiðsla fyrir barn yngra en tveggja ára er 40 þúsund krónur á mánuði en verður 69.832 krónur á mánuði fyrir barn sem er orðið tveggja ára.“

Að sögn Guðrúnar vilja foreldrar fá skýr svör um stefnu bæjaryfirvalda varðandi leikskóla og dagforeldra. Erfitt hafi verið að fá þau.

Ungbarnaleikskólanum Bjarma, þar sem pláss er fyrir 24 börn, verður lokað 31. júlí í kjölfar uppsagnar bæjarins á samningi um rekstur. Samningnum var sagt upp í hagræðingarskyni og vegna spár um fækkun barna á leikskólaaldri á næstu fimm árum.

Meirihlutinn segir ungbarnaplássum við aðra leikskóla verða fjölgað á móti. Minnihlutinn vill að svigrúmið sem skapast við fækkun leikskólabarna á tilteknum aldri verði nýtt til að lækka inntökualdur á leikskóla til frambúðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×