Innlent

Börkur fær ekki að vinna utan fangelsisins

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar Birgissonar
Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar Birgissonar
Ákvörðun Fangelsismálastofnunar um að synja Berki Birgissyni, fanga á Sogni, um reynslulausn og vinna utan fangelsisins hefur verið kærð til innanríkisráðuneytisins. Börkur afplánar nú sex ára fangelsisdómi sem hann hlaut haustið 2013 fyrir grófa líkamsárás í janúar 2012. Í mars var Börkur sýknaður af ákæru um að hafa veitt samfanga sínum áverka á Litla-Hrauni sem drógu hann til dauða í maí 2012.

Eftir að Börkur var sýknaður sótti hann um Verndarúrræði hjá Fangelsismálastofnun. Því var synjað á þeim grundvelli að Börkur er með mál í kerfinu, en sýknudómi héraðsdóms var áfrýjað til Hæstaréttar. „Ég set spurningamerki við þetta. Þó það sé ekki komin endanleg niðurstaða fyrir Hæstarétti þá hefur hann stöðu sýknaðs manns. Það má líka benda á að þó það sé mál í kerfinu þá á það ekki að koma í veg fyrir að hann geti fengið þau úrræði sem hann á rétt á. Tafirnar sem hafa orðið á málinu eru ekki honum að kenna á nokkurn hátt,“ segir Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar.

Þá sótti Börkur um að fá að vinna utan fangelsisins í byrjun þessa árs en fékk synjun á grundvelli nýrra laga um fangelsi sem tóku gildi stuttu síðar. Nú þurfa fangar að vera búnir að sitja inni í fimm ár til að geta stundað vinnu utan fangelsisins en áður voru það fjögur ár. „Við sóttum um í tíð eldri laga og það eru þau sem eiga að gilda. Ég tel að hann eigi skýlausan rétt á því að fá vinnu utan fangelsisins,“ segir Sveinn.

Engin svör hafa borist frá ráðuneytinu vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×