Skoðun

Borgin standi við stóru orðin

Kristinn Steinn Traustason skrifar
Nú hefur fengist glæsileg niðurstaða í hönnunarsamkeppni um samþættan leik- og grunnskóla með aðstöðu fyrir frístunda- og félagsstarf, menningarmiðstöð, bókasafn, sundlaug og íþróttaaðstöðu Fram í Úlfarsárdal. Næstu skref eru að ljúka hönnun mannvirkjanna og hefja framkvæmdir.

Húsnæði Dalskóla er mest aðkallandi í augum íbúa Úlfarsárdals, enda liðin sjö ár frá því fyrstu íbúar fluttu í hverfið. Búið er að selja allar fjölbýlishúsalóðir í hverfinu og eru nú eftir um 111 sérbýlishúsalóðir. Gera má ráð fyrir að nemendum Dalskóla muni fjölga verulega á næstu árum. Nemendur Dalskóla eru í dag um 200 og má áætla að þeir verði um 400 eftir tvö ár.

Borgin hefur nú auglýst lóðirnar í hverfinu til sölu á föstu verði og til þess að vel takist til með sölu lóða verður borgin að sýna fram á raunhæfa og metnaðarfulla áætlun um hraða uppbyggingu á þessum nauðsynlega þjónustukjarna. Ekki er ásættanlegt að Reykjavíkurborg ætli sér næsta áratuginn eða tvo til uppbyggingar þegar borgin hefur nú þegar dregið lappirnar í um 15 ár tengt uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir íbúa Grafarholts og Úlfarsárdals.

Nú er komið að Reykjavíkurborg að standa við stóru orðin um myndarlega og hraða uppbyggingu í hverfinu eins og lofað var þegar lóðirnar í hverfinu voru boðnar út og seldar á mjög háuverði. Íbúar Úlfarsárdals og Grafarholts fagna niðurstöðu úr hönnunarsamkeppni og bíða spenntir eftir að sjá þessa glæsilegu hönnun verða að veruleika.




Skoðun

Sjá meira


×