Innlent

Borgin innheimti afgreiðslugjald án lagaheimildar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Gjaldið nam 10.500 krónum. Þeim tilmælum var beint til borgarinnar að endurgreiða hið ólögmæta gjald.
Gjaldið nam 10.500 krónum. Þeim tilmælum var beint til borgarinnar að endurgreiða hið ólögmæta gjald. vísir/stefán
Reykjavíkurborg innheimti gjald fyrir svör við spurningum um gildandi deiliskipulag án þess að hafa til þess neina lagaheimild. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis sem birt var í gær.

Kvartandi hafði verið í samskiptum við borgina til að fá því svarað hvort fyrirhuguð bygging hans á bílskúr myndi rúmast innan núgildandi deiliskipulags. Í kjölfar þeirra beið hans greiðsluseðill í heimabanka upp á 10.500 krónur. Kom þá í ljós að borgin rukkaði það gjald fyrir það eitt að svara fyrirspurnum. Eftir þessi samskipti við borgina var afráðið að kvarta til umboðsmanns.

Í niðurstöðu umboðsmanns kemur fram að samkvæmt orðalagi gjaldskrár Reykjavíkurborgar, og gjaldtökuheimildar í skipulagslögum, væri ljóst að gjaldtakan tæki til erinda sem lytu að breytingum á gildandi skipulagi. Hins vegar væri engin heimild til að innheimta gjald ef aðili hefði ekki óskað eftir breytingum á gildandi skipulagi.

Það var því niðurstaða umboðsmanns að óheimilt hefði verið að krefjast þess að umrætt afgreiðslugjald yrði innt af hendi. Beindi hann þeim tilmælum til borgarinnar að hún endurgreiddi gjaldið og að hún tæki í framtíðinni mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×