Innlent

Borgin færir Nuuk og Þórshöfn jólatré

Atli Ísleifsson skrifar
Reykjavikurtréð á Vaglinum í Þórshöfn í Færeyjum.
Reykjavikurtréð á Vaglinum í Þórshöfn í Færeyjum. Mynd/Reykjavíkurborg
Reykjavíkurborg mun í ár færa íbúum í Nuuk, höfuðborg Grænlands, íslenskt jólatré að gjöf, en þetta er í fyrsta sinn sem borginni er gefið jólatré. Borginn vill með þessu undirstrika vinasamband milli borganna.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að jólatréð hafi verið fellt á skógræktarsvæði Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk í byrjun nóvember og sé tíu metrar að hæð.

Tréð hefur verið sett upp við Hans Lynge grunnskólann í Qinngorput hverfinu í Nuuk og mun Líf Magneudóttur, forseti borgarstjórnar, afhenda tréð við hátíðlega athöfn klukkan 16.30 að staðartíma, eða 18.30 að íslenskum tíma.

Asii Chemnitz Narup, borgarstjóri Nuuk, tekur við trénu og þá verða sungnir jólasöngvar á íslensku og grænlensku og gengið í kringum jólatréð.

„Á morgun kl. 15:30 mun Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, afhenda íbúum í Þórshöfn í Færeyjum jólatré að gjöf frá Reykvíkingum við hátíðlega athöfn á Vaglinum í miðborg Þórshafnar. Það verður í fjórða sinn sem  Þórshafnarbúar fá íslenskt jólatré að gjöf sem þakkarvott fyrir þá frændsemi og vináttu sem þeir hafa sýnt Íslendingum í gegnum tíðina.  Heðin Mortensen, borgarstjóri Þórshafnar, veitir trénu viðtöku fyrir hönd íbúa og sungin verða jólalög.

Jólatréð var höggvið á skógræktarsvæði Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk fyrr í mánuðinum,“ segir í frétt á vef Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×