Sport

Borgin byggir nýjan frjálsíþróttavöll Í Mjóddinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
ÍR-ingurinn Aníta Hinriksdóttir efst á palli.
ÍR-ingurinn Aníta Hinriksdóttir efst á palli. Vísir/Daníel
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur og Margrét Héðinsdóttir, formaður frjálsíþróttadeildar ÍR skrifuðu í gær undir samning vegna framkvæmda við frjálsíþróttavöll í Suður-Mjódd.

„Þetta er sögulegur viðburður því ekki hafa áður verið byggðir vellir með gerviefni fyrir einstök félög í borginni," segir í frétt á heimasíðu frjálsíþróttasambands Íslands.

Samkvæmt frétt inn á heimasíðu Reykjavikurborgar munu útboðsgögn verða undirbúin innan tíðar svo hægt verði að hefja framkvæmdir síðar á árinu.

Uppbygging frjálsíþróttavallarins er hluti af samningi sem Reykjavíkurborg og Íþróttafélag Reykjavíkur gerðu á nýliðnu ári um skipulagsvinnu og uppbyggingu í Suður-Mjódd.

Deiliskipulag fyrir svæðið hefur verið unnið í samvinnu ÍR og borgaryfirvalda og fer það brátt í hefðbundna kynningu.

Borgarráð hefur samþykkt að verja 50 milljónum króna af framkvæmdafé ársins 2015 til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×